142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

áherslur nýrrar ríkisstjórnar í ríkisfjármálum.

[15:02]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í umræðu um fjárlög yfirstandandi árs á síðasta ári var bent á mörg blikkandi ljós og mig langar í þessari umræðu að gera grein fyrir nokkrum þeirra. Seðlabankinn varaði við því að aukins útgjaldaþrýstings gætti meðal annars í tengslum við þingkosningar og auk þess væri óvíst hver væri aðkoma stjórnvalda og hver hún gæti orðið við endurskoðun kjarasamninga ef hún yrði einhver. Óvissa ríkti um þróun fjármagnskostnaðar hins opinbera vegna þess að ekki hafði tekist að ná tökum á innlendri verðbólgu — það stendur vonandi til bóta — og óvissa væri um afnám gjaldeyrishafta. Þá varaði bankinn við óvissu sem tengd væri eiginfjárþörf Íbúðalánasjóðs í ljósi umfangsmikilla og vaxandi vanskila og ört fjölgandi yfirtekinna fasteigna og út af lakari horfum í grunnrekstri. Á þetta var allt bent.

Seðlabankinn taldi líka að óvissa væri um forsendur fjárlaga og hætt væri við að verr gengi að ná jöfnuði í rekstri hins opinbera en gert væri, m.a. vegna þess að stjórnvöld hefðu ekki innleitt formlegar fjármálareglur. Og á það lagði Seðlabankinn áherslu. Alþingi hefur sett sveitarfélögum slíkar reglur og Alþingi ætti að setja framkvæmdarvaldinu slíkar reglur og það hið fyrsta. Það mundi breyta ýmsu við gerð fjárlaga og það mundi sýna aðhald í rekstri og bæta stöðu ríkissjóðs.

Hæstv. forseti. Í umræðum um yfirstandandi fjárlög þessa árs var líka bent á það að hagkerfið liði fyrir skuldsettan ríkissjóð og að það ætti að vera forgangsmál að ná jákvæðum heildarjöfnuði í ríkisfjármálum svo að unnt væri að lækka skuldir ríkisins. Það var líka bent á það í þessari umræðu að til þess væru tvær leiðir. Annars vegar þyrfti greiðsluafkoma ríkissjóðs að skila afgangi eða að verja þyrfti eignum ríkissjóðs, arði eða söluandvirði til uppgreiðslu skulda. Hvorugt gekk eftir og fráfarandi ríkisstjórn ákvað, í fjárfestingaráætlun sinni, að nýta hugsanlegan arð af fjármálafyrirtækjum og hugsanlegan arð í sérstöku veiðigjaldi til þess að setja meðal annars inn í fjárfestingaráætlun sína.

Það var ekki hugsað til þess að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Hvergi var minnst á það einu orði. Það er því dálítið kúnstugt, hæstv. forseti, þegar hér koma tveir fyrrverandi fjármálaráðherrar síðasta kjörtímabils, einn þeirra vantar, og ræða það að taka þurfi höndum saman um að greiða niður skuldir ríkisins. Afkoma ríkissjóðs, samkvæmt ríkisreikningi árið 2009, var þannig að þá voru gjöld umfram tekjur í kringum 140 milljarðar. Árið 2010 var það í kringum 124 milljarða og árið 2011, samkvæmt ríkisreikningi, voru gjöld umfram tekjur tæpir 90 milljarðar.

Virðulegur forseti. Í fjárlögum yfirstandandi árs, ársins 2013, eru vaxtagjöld þriðji stærsti útgjaldamálaflokkurinn á eftir velferðar- og heilbrigðismálum. Það er áætlað, eins og hér hefur komið fram, að vaxtagjöld ríkissjóðs á árinu 2013 nemi 84 milljörðum og vaxtatekjur í kringum 20 milljörðum og það er sýnt að vaxtakostnaður ríkissjóðs vex ár frá ári ef ekki verður brugðist við.

Það kom líka fram, og hefur verið sýnt fram á, að fjármagnsjöfnuður versnaði um 15,5 milljarða á milli áranna 2009 og 2012 og sama þróun heldur áfram miðað við fjárlagafrumvarp yfirstandandi árs. Þar er gert ráð fyrir 7,5 milljarða króna breytingu milli ára og að vextir umfram vaxtatekjur verði neikvæðir um 63 milljarða árið 2013.

Virðulegur forseti. Þetta er staðan og það er algjörlega ljóst að vaxtagjöld og skuldsetning ríkissjóðs er orðinn verulegur áhættuþáttur og hefur verið í rekstri ríkisins. Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga að ríkissjóður fjármagnar sig í skjóli gjaldeyrishafta.

Einnig var bent á það, í umræðu um fjárlög yfirstandandi árs, að það ætti að vera forgangsverkefni að lækka vaxtagreiðslur ríkissjóðs og hefja niðurgreiðslu skulda. Fráfarandi ríkisstjórn ákvað að taka þann umframarð sem hugsanlega fengist úr fjármálastofnunum í önnur verkefni. Hún lagði ekki áherslu á að greiða niður skuldir og draga þannig úr vaxtagjöldum ríkissjóðs. Hún gerði það ekki og það þýðir ekkert að koma hér og kalla nú eftir einhverjum öðrum gjörðum en fráfarandi ríkisstjórn sýndi. Bent var á að skilyrðislaust ætti að ráðstafa arði af eignum ríkissjóðs og tekjum af sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum til lækkunar skulda. Á það var ekki hlustað.

Virðulegur forseti. Mönnum hefur orðið tíðrætt um að vel hafi gengið í ríkisfjármálum. Ekki ætla ég að draga dul á að það ástand sem hér skapaðist 2008 og það bú sem fráfarandi ríkisstjórn tók við var fordæmalaust. Það breytir ekki því að menn geta ekki staðið hér og barið sér á brjóst og talað um að hafa náð góðum og miklum tökum á verkefninu þegar sýnt er að fjárlög hvers einasta árs stóðust aldrei, að í öllum fjáraukalögum var komið með tugi milljóna ef ekki hundruð milljóna til að laga fjárlögin hvert ár. Þannig er það og þannig blasir það við að það verði árið 2013 vegna þess að í umræðu um fjárlagafrumvarpið í nóvember og desember var það beinlínis sagt að það yrði komið í fjárlögum 2013 til þess að mæta útgjöldum sem hæstv. ríkisstjórn hygðist standa fyrir. Það var sagt hér í þessari umræðu.

Virðulegur forseti. Það er ljóst samkvæmt ríkisreikningi í árslok 2011 hverjar langtímaskuldir og skammtímaskuldir eru. Þær eru um 1.915 milljónir, hvorki meira né minna, og þá er ekki tekið tillit til óleystra vandamála Íbúðalánasjóðs, óbókfærðar lífeyrisskuldbindingar A-deildar LSR, ekki er tekið tillit til þess.

Við getum endalaust talað um hvernig hlutirnir voru en ég held að við ættum að einbeita okkur að því að tala um hvernig við viljum að hlutirnir verði. Það er í mínum huga mjög mikilvægt að ríkissjóður Íslands verði rekinn hallalaus og ég held að við getum öll verið sammála um það. Það er mér líka mikilvægt að lækka skuldir ríkisins og draga úr vaxtagjöldum og vaxtabyrði. Við hljótum öll að geta komið okkur saman um það. Þannig hafa tveir fyrrverandi fjármálaráðherrar í það minnsta talað hér.

Ég vona að það verði sú nálgun sem hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjármálaráðherra horfa til þegar hann leggur fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2014 en það breytir ekki þeirri stöðu, virðulegi forseti, að það blasti við við fjárlög yfirstandandi árs, þegar þau voru rædd og þegar þau voru samþykkt, að inn í þau vantaði marga stóra þætti sem boðað var að kæmu í fjárlögum árið 2013. Við eigum eftir að sjá hvernig það kemur í ljós. Sú staða sem við stöndum frammi fyrir er að ríkisreikningur ársins 2011 og fjárlög og fjáraukalög ársins 2012 voru ekki í þá veru sem væntingar stóðu til. Í mínum huga er ljóst að svo verður heldur ekki um fjárlög yfirstandandi árs. Þau verða ekki í þá veru sem væntingar stóðu til, þau fjárlög sem hér voru samþykkt í desember 2013.

Virðulegur forseti. Þess vegna finnst mér, tæpum tveimur mánuðum frá kosningum, sérkennilegt þegar fráfarandi stjórnarflokkar kalla eftir ráðstöfunum, kalla eftir því að núverandi ríkisstjórn, sem setið hefur í tæpan mánuð, sé í fyrsta lagi tilbúin með svör við öllum spurningum, í öðru lagi hvernig fjárlagafrumvarpið komi til með að ganga og í þriðja lagi hvort það sé stefnan að leggja fram hallalaus fjárlög. (Forseti hringir.) Og ég tel eðlilegt að stefnt verði að því og að það eigi að stefna að því. (Forseti hringir.) Nákvæmlega á sama hátt og Alþingi hefur sett sveitarfélögunum fjármálareglur þá á Alþingi að setja sjálfu sér og framkvæmdarvaldinu fjármálareglur sem hægt sé að fara eftir.