142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

áherslur nýrrar ríkisstjórnar í ríkisfjármálum.

[15:13]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég segi eins og aðrir, ég er hugsi yfir stöðunni og afstöðu stjórnvalda til ríkisfjármálanna. Kjörtímabilið er reyndar bara rétt nýhafið þannig að ég gef mér að stjórnvöld hafi meiri yfirsýn og stjórn á stöðunni en ég hef tilfinningu fyrir.

Mikið hefur verið rætt í þessum sal um þá ákvörðun stjórnvalda að hætta við að hækka virðisaukaskatt á gistingu. Það mun þýða minni tekjur í ríkiskassann. Stjórnvöld hafa ekki sýnt fram á hvernig þau ætla að hagræða eða afla tekna á móti.

Þar sem ég sit í fjárlaganefnd hef ég verið að grufla aðeins í málunum og var að lesa nefndarálit frá 1. minni hluta fjárlaganefndar sem kom út í lok síðasta árs eða 29. nóvember. Í minnihlutaálitinu segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi til fjárlaga var gert ráð fyrir að gistiþjónusta færðist í almenna skattþrepið 25,5% frá og með 1. maí 2013 en nú er hins vegar gert ráð fyrir að skattþrepið verði 14%. Þetta lækkar áætlun frumvarpsins um 1,5 milljarða kr.“

Fyrsti minni hlutinn nefnir fleiri skattalækkanir og orðrétt segir í álitinu, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi til fjárlaga var gert ráð fyrir að atvinnutryggingagjald lækkaði úr 2,45% í 2,15% á árinu 2013. Nú er aftur á móti gert ráð fyrir að það lækki um 0,10% í viðbót og verði því 2,05%. Við það lækka tekjur ríkissjóðs um ríflega 1 milljarð kr. …“

Ég les það svo að 1. minni hluti hafi haft áhyggjur af þessum tekjumissi, þ.e. að ríkið verði af tekjum vegna lækkunar á sköttum. Ég skil þessa gagnrýni mætavel. En eru ekki stjórnvöld að gera nákvæmlega það sama núna? Ákveða að lækka tekjur án þess að koma með tillögur um það hvar eigi að spara á móti eða hvar eigi að auka tekjur? Mér finnst eins og þessi kenning sem haldið er fram endalaust um að tekjur aukist sjálfkrafa með því að lækka skatta sé bara notuð eftir hentugleikum. Það verður heldur ekki annað séð en að 1. minni hluta hafi verið ljóst hversu veik staða ríkissjóðs væri. Hún kom okkur í Bjartri framtíð að minnsta kosti ekkert á óvart. Þess vegna, eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson sagði, lofuðum við engu fyrir kosningar. Það vissu það allir sem vildu að staðan var mjög veik og það kom okkur mjög á óvart hve sumir flokkar voru tilbúnir að lofa miklu, kannski upp í ermina á sér.

Á sama hátt og með sáttina er auðvelt að tala um aga í ríkisfjármálum en það virðist vera erfiðara að ná honum. Ég vona bara að stjórnvöld viti hvað þau eru að gera. Mér finnst það eðlileg krafa okkar að kalla eftir upplýsingum. Þegar talað er um að lækka tekjurnar verðum við auðvitað að sjá líka útgjaldahliðina. Hvar á að draga saman? Ætla menn að fækka stofnunum, loka einhverjum stofnunum? Hvernig á þetta að fara fram? Mér finnst menn ekkert getað kveinkað sér yfir því að veita upplýsingar um það. En það er rétt, við erum bara rétt að byrja og ég vona að stjórnvöld hafi meiri yfirsýn en ég hef á tilfinningunni að þau hafi.