142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

áherslur nýrrar ríkisstjórnar í ríkisfjármálum.

[15:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna sem hefur að langmestu leyti verið málefnaleg og uppbyggileg með einstaka undantekningu, það var kannski fyrirséð.

Mér finnst einkennilegt að þurfa að svara fyrir það að þegar við drögum fram myndina í ríkisfjármálum eins og hún blasir við okkur nú þegar við komum inn í Stjórnarráðið séum við sögð vera að væla — væla undan stöðunni sem hafi verið svo miklu verri einhvern tímann áður. Það er ekkert slíkt á ferðinni. Við erum bara að draga fram myndina eins og hún blasir við okkur í dag.

Hér hefur verið komið víða við og margir þættir ríkisfjármálanna verið nefndir sérstaklega. Ég ætla að byrja á því að ræða aðeins um stöðuna eftir fjóra mánuði á þessu ári.

Það er sagt að við séum algerlega á áætlun þegar á heildina sé litið. En vandinn liggur í því að skatttekjurnar hafa ekki skilað sér ekki eins og menn höfðu reiknað með. Þær eru um 90% tekjum ríkisins. Þessi veikleiki sem birtist á fyrri hluta ársins, fyrstu fjórum mánuðunum, er líklegur til þess að vera viðvarandi vandamál út árið. Þess vegna spáum við því í fjármálaráðuneytinu að þegar upp verður staðið verði þessi veikleiki til staðar eftir 12 mánuðina. Það eru skatttekjurnar sem eru ekki að skila sér. Aðrar tekjur hafa að einhverju leyti skilað sér hraðar, en síðan munu koma veikleikar á móti á síðari hluta ársins. Þetta vildi ég sagt hafa út af umræðunni um tekjur á fyrsta ársfjórðungi eða fyrstu fjórum mánuðum þessa árs.

Menn nefna hér ýmsa tekjuliði. Nú erum við sökuð um að vilja ekki framlengja auðlegðarskattinn. Það var ríkisstjórnin sem ákvað að hann skyldi vera tímabundinn. Nú er í gangi dómsmál um það hvort hann stenst yfir höfuð stjórnarskrána. En það eru ekki uppi áform um að framlengja þann skatt. Hafi stjórnarliðar á sínum tíma viljað hafa hann viðvarandi var þeim í lófa lagið að festa það í lög, en það var sérstök ákvörðun fráfarandi ríkisstjórnar að hafa hann tímabundinn. Það er ekki við okkur að sakast þegar skatturinn fellur síðan niður eins og fyrrverandi ríkisstjórn hafði ákveðið. Þetta er furðuleg umræða.

Varðandi veiðigjöldin er það sömuleiðis afskaplega einkennileg umræða. Alveg stórundarleg reyndar. Það er sagt að ný ríkisstjórn sé að afsala ríkissjóði tekjum. Viðkvæðið er alltaf að við séum annaðhvort að sleppa út tekjum eða afsala okkur einhverjum tekjustofnum.

Skoðum veiðigjaldið í sögulegu samhengi. Hvert var veiðigjaldið fyrir nokkrum árum síðan? Hvers vegna er ekki hægt að ræða um veiðigjaldið í því samhengi og horfast í augu við að veiðigjaldið eins og það er áætlað í nýju frumvarpi frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er u.þ.b. tífalt hærra en það var fyrir örfáum árum síðan? Það er líka stutt síðan þingmenn voru almennt sammála um að sleppa ætti útgerðinni verið veiðigjald það árið vegna erfiðrar rekstrarafkomu. (Gripið fram í.)

Menn innheimtu lengst af, hv. þingmaður sem kallar hér fram í, í kringum 1 milljarð, það hafði hækkað upp í 1 milljarð. Nú eru menn með áætlanir um að innheimta tífalt það gjald, en það heitir á máli þeirra sem gagnrýna ákvörðunina „að sleppa út tekjum“. Maður getur skilið það vegna þess að viðkomandi aðilar höfðu uppi áform um að taka allt að 30 milljarða af útgerðinni þegar vel áraði. En að okkar mati og flestra þeirra sem fengu málið til umsagnar voru þau áform algerlega óraunhæf. Þetta eru gjöld sem koma til viðbótar við önnur gjöld sem sjávarútvegsfyrirtækin í landinu greiða og hafa verið stórkostlega skaðleg.

Í umræðunni hefur verið komið inn á það að fráfarandi stjórnarflokkar hafi talað um þessa erfiðu stöðu, það sé ekkert nýtt í því sem hér sé verið að ræða af hálfu nýrrar ríkisstjórnar. Það sem er ekki nýtt er að fjárlög fráfarandi ríkisstjórnar virðast ekki ætla að halda. Það gerðist árið 2009. Það gerðist líka árið 2010, 2011, 2012 og nú er árið 2013 og það stefnir í að fjárlögin haldi ekki og það munar töluvert miklu. Það má segja að það sé ekkert nýtt í þessu. Það er ekkert nýtt í því að áform og áætlanir sem birtast hér og eru samþykktar sem fjárlög ganga ekki eftir þegar upp er staðið.

Þessir flokkar sem segjast hafa talað um erfiða stöðu ríkissjóðs voru líka með uppi áform um að auka við útgjöld ríkissjóðs á næstu örfáu árum. Það birtist líka í frumvörpum sem eru nýkomin fram. Þannig voru t.d. uppi áform um að auka útgjöld til velferðarmála um 30–50 milljarða nefnd í kosningabaráttunni af þessum sömu flokkum, en þeir koma samt núna upp og segja að þeir hafi talað fyrir gríðarlega erfiðri stöðu ríkissjóðs. Mér finnst menn tala út og suður um þetta ef ég á að segja alveg eins og er.

Hér er spurt hversu mikla áherslu stjórnarflokkarnir ætli að leggja á að ná heildarjöfnuði. Við munum leggja alla áherslu á að gera það. En við ætlum að vera raunsæ. Við ætlum að tala um hlutina eins og þeir eru. Við teljum að fyrstu aðgerðir okkar muni styrkja stöðu ríkissjóðs til lengri tíma.

Hér er rætt um ferðaþjónustuna. En ef við viljum ræða um stöðu ferðaþjónustunnar í landinu þarf að brjóta hana upp í ýmsar undirgreinar. Ef við skoðum sérstaklega gistiþjónustuna í landinu stendur hún ekkert sérstaklega vel. Nýjar skýrslur, t.d. frá McKinsey, sýna að afkoma í greininni er algjörlega óviðunandi. Framlegðin hjá ferðaþjónustunni er lág. Hjá gistiþjónustunni vantar verulega mikið upp á nýtingu, sérstaklega úti á landsbyggðinni. Hér á höfuðborgarsvæðinu hafa menn barist í bökkum við að láta enda ná saman. Menn geta sagt að ferðaþjónustan heilt yfir sé í miklum vexti og gangi ágætlega, en þessi aðgerð, það frumvarp til laga sem við komum hér með og kynnum í þinginu, beinist sérstaklega að gistiþjónustunni sem er einn þáttur í samkeppnisstöðu ferðaþjónustunnar heilt yfir. Við trúum því að með því að viðhalda sterkri samkeppnisstöðu ferðaþjónustunnar, þar sem gistiþjónustan er einn mikilvægur þáttur, skapi menn ríkinu meiri tekjur til lengri tíma litið.

Ég gæti komið inn á ýmislegt fleira. Það var nefnt í umræðunni hvort við vildum ekki skoða hluti eins og stimpilgjaldið. Því er til að svara að það er til skoðunar. Reyndar hafði verið að störfum nefnd þegar við komum í Stjórnarráðið til að skoða stimpilgjaldið. Hún mun skila af sér á haustdögum.

Það er spurt hvort ekki standi til að lækka tryggingagjald. Það hlýtur að koma til skoðunar samhliða gerð kjarasamninga, sérstaklega það sem stendur undir (Forseti hringir.) atvinnuleysistryggingunum. Og fleira gæti ég nefnt sérstaklega.

Ég kalla eftir skilningi á því að ný ríkisstjórn komi ekki með (Forseti hringir.) langtímaáætlun í ríkisfjármálum fyrr en lög boða að það verði gert, á haustþingi.