142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[16:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er sannfæring mín að markaðurinn sé góður þjónn en slæmur húsbóndi og þess vegna væri mjög eftirsóknarvert að nýta hann til þess að ákvarða auðlindagjöld. Ég get lofað hv. þingmanni því að ef rétturinn til þess að veiða kíló af þorski yrði boðinn upp á markaði yrði verðið ekki þær 17 krónur sem stjórnarmeirihlutinn leggur hér til, heldur miklu hærri og hv. þingmaður veit það jafn vel og ég. Þess vegna er hér verið að undirverðleggja takmörkuð gæði í þágu forréttindastéttar, útgerðarmanna sem verið er að gera gælur við að afloknum kosningum, jafn ósmekklegt og það nú er.

Ég vil hins vegar segja að maður á ekki að vera kreddubundinn í þessu og ef menn vilja ákveða gjaldið með einhverjum öðrum hætti en á markaði er ég algjörlega opinn fyrir því. Það verður bara að vera gert með málefnalegum hætti. Ég sagði að við lokuðum engum leiðum í því, það má vera krónutala ef menn telja það vera réttu leiðina eða vera byggt á einhverjum tilteknum upplýsingum ef þeir færa efnisleg rök fyrir því. Það er auðvitað vont að byggja á gömlum upplýsingum. Mér hugnast best það sem Kristján Möller hefur nefnt, að verðið sem í gangi er á þeirri stundu þegar landað er ákvarði hvaða veiðigjald á að greiða.

Það má líka hugsa sér fjölmargar aðrar leiðir og það er auðvelt að afla upplýsinga um hvað næstu mánuðir og missiri bera í skauti sér. Það liggur fyrir hvaða aflaheimildir verða veittar. Það eru til framvirkir samningar á heimsmörkuðum um olíuverðið eins og það mun þróast. Sömuleiðis eru til samningar a.m.k. eitthvað fram í tímann sem gefa vísbendingar um hvers megi vænta í fiskverði og annað þess háttar. Ég held að við getum haft nokkrar leiðir varðandi það með hvaða hætti menn komast að málefnalegri niðurstöðu en hér er náttúrlega bara verið að gefa útgerðarmönnum peninga.