142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[16:28]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil þakka fyrir þessar umræður. Hér hefur aðeins verið rætt um undirskriftasöfnun sem hófst fyrir u.þ.b. 20 klukkutímum og ber yfirskriftina „Óbreytt veiðigjald“. Núna þegar ég var að kíkja á hana hafa 7.842 skrifað undir. Í því sambandi held ég að mjög mikilvægt sé að við höfum í huga í þessum umræðum það sem kom líka fram í ræðu hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, að í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október sl. um heildarendurskoðun á stjórnarskrá þar sem út fyrir sviga var tekið hvort almenningur vildi að auðlindirnar væru í þjóðareigu sögðu 83% þjóðarinnar já.

Ég held að það hve hratt hefur safnast á þennan undirskriftalista, sem er algjörlega sjálfsprottinn, lýsi vel afstöðu þjóðarinnar til þessa máls. Í yfirskrift söfnunarinnar segir, með leyfi forseta:

„Við undirrituð hvetjum Alþingi til að samþykkja ekki frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum nr. 74/2012 frá 26. júní 2012, þar sem skilgreind eru þau gjöld sem útgerðinni ber að greiða fyrir afnot af sameiginlegri fiskveiðiauðlind okkar.

Verði Alþingi ekki við þeirri ósk verður þessi undirskriftalisti afhentur hr. Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, og hann hvattur til að undirrita ekki lög sem taka til breytinga á lögum nr. 74/2012, frá 26. júní 2012, heldur vísa þeirri ákvörðun í þjóðaratkvæði til eigenda fiskveiðiauðlindarinnar, íslensku þjóðarinnar.“

Þetta er svolítið merkilegt að vera hér enn og aftur í þeirri stöðu að hvetja stjórnvöld til að hlusta á almenning. Síðast var það í tengslum við Icesave og þá var ég í góðri samvinnu við þá flokka sem nú eru í ríkisstjórn. Nú mun ég án efa vera í góðri samvinnu við þá flokka sem ekki eru í ríkisstjórn um málefni sem varðar svo sannarlega þjóðarhag.

Ég held að þetta sé mjög gott dæmi og mjög mikilvægt fyrir okkur þingmenn, sem erum hér í umboði þjóðarinnar en ekki smárra hagsmunahópa, að byrja að aftengja og skilja að þessi óeðlilegu tengsl viðskiptaheims við þingheim. Það er löngu tímabært. Höfum við ekkert lært, höfum við ekki neitt lært af hruninu? Nei, það er bara eitthvert óþægilegt kusk sem við skulum reyna að gleyma og tala um sem „svokallað“. Nei, það er svo sannarlega tími kominn til að sýna í verki að hér ráða einvörðungu hagsmunir alls almennings.

Ég var í umræðum rétt áðan um stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og ég innti hæstv. fjármálaráðherra eftir skýrum svörum um hvernig ætti að brúa þessa óyfirstíganlegu gjá. Hann svaraði mér ekki. Ég spurði hæstv. ráðherra hvort til stæði að skera niður í heilbrigðis- og menntakerfinu eða hvort til stæði að gefa í eins og þörf er á og minni hlutinn, sem nú er í ríkisstjórn, hefur talað mjög eindregið fyrir. Ég fékk ekki nein svör við því. Þegar manni er ekki svarað hlýtur maður að lesa í þögnina og að mér setur ugg, ég verð að segja það.

Við vitum að heilbrigðiskerfið okkar er komið út fyrir formið. Við vitum að menntakerfið okkar er mjög veikburða. Við vitum að grunnstoðir samfélags okkar standa ekki styrkum fótum og þar er ekki einvörðungu hægt að kenna um verkstjórn síðustu ríkisstjórnar heldur þurfum við að horfast í augu við að hér varð þriðja mesta fjármálahrun heimssögunnar. Ég verð að segja, forseti, að þrátt fyrir að ég hafi gagnrýnt fyrrverandi ríkisstjórn oft á tíðum og sér í lagi varðandi ríkisbúskapinn, er ég ævarandi þakklát fyrir að það voru vinstri flokkar sem huguðu að því að skera ekki alveg inn að merg, því að það er svo oft þannig þegar niðurskurður er eftir svona hrun.

Ég hef setið mikið á fundum með „góðvinum mínum“ í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem ég gagnrýni alltaf þegar ég hitti þá. Mér fannst svolítið athyglisvert að heyra fulltrúa hans segja að þeir hefðu gríðarlegar áhyggjur af því sem við erum að tala um núna, afnámi veiðigjaldanna. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn getur hreinlega ekki séð hvernig á að brúa þetta bil, þeir sjá ekki að ríkisstjórnin geti greitt niður skuldirnar. Því væri mjög gagnlegt að vita, af því að ég gat ekki fengið nákvæma tölu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, hvað við skuldum þeim eiginlega mikið enn þá og hvað við borgum þeim mikla vexti.

Það væri náttúrlega mjög gagnlegt að losa okkur úr viðjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en ég sé ekki að það gerist ef við ætlum að skera af eitthvað sem hefði verið nauðsynlegt til að geta haldið áfram að reyna að setja stoðir undir mjög veikburða samfélagsgrunn.

Það sem ég hef áhyggjur af er að ef við höldum áfram að segja við fólkið í landinu að hagsmunir lítils hóps vegi þyngra en hagsmunir heildarinnar muni sú virðing sem ekki hefur farið mikið fyrir gagnvart þessari stofnun ekki breytast með því að setja bindi um hálsinn á þingmönnunum. Um það var mikið rætt í forsætisnefnd í morgun hve nauðsynlegt væri að þingmenn klæddu sig snyrtilega. Ég held að það sé mun mikilvægara að við sýnum snyrtimennsku og heiðarleika í verkum en ekki á yfirborði.

Það er svolítið merkilegt að fylgjast með því hér á hinu háa Alþingi hvað orðin eru oft innantóm. Það er ótrúlega merkilegt að fylgjast með því hvað fólk er tilbúið að gleyma mikilvægi þess að vera flekklaus í orði. Orð eru mjög mögnuð. Ef maður segist fylgja einhverju einn daginn og snýr síðan blaðinu við næsta dag er manni varla treystandi.

Ég upplifi hér það sem ég hef gefið heitið ping-pong pólitík eða það sem ég kalla stundum líka ullarpeysupólitíkina, ullarpeysuna sem aldrei varð til, út af því sem maður horfir upp á á þessu sumarþingi. Núverandi ríkisstjórn ætlar að rekja upp allt sem hin ríkisstjórnin gerði. Þar á undan rakti sú ríkisstjórn upp allt það sem ríkisstjórnin þar á undan gerði. (Gripið fram í.)

Það er svo mikilvægt að við hættum að vinna á þennan hátt. Við verðum að klára peysuna sem er skjólið utan um þjóðina. — Mjög þjóðlegt, þetta er meira að segja ullarpeysa, og þess vegna er garnið svona viðkvæmt. Ef við erum alltaf að rekja upp trosnar það upp og hér blasir aðeins við samfélag sem mun aldrei gróa um heilt. Það eru ótrúlegar erjur í samfélaginu. En það er þó eitt sem þjóðin okkar er tiltölulega samhent og sammála um og það er að þeir sem njóta arðsins af okkar sameiginlegu auðlind þurfi að leggja til í sameiginlega sjóði okkar. Það er svo einfalt. Og okkur sem þingmönnum ber að hlusta á þjóðina. Það er bara þannig.

Við skulum hætta þessu bulli, förum frekar og skoðum það sem hefur verið gagnrýnt, að það séu gallar í því hvernig þetta kemur út út frá mismunandi fiskstofnum. Það er allt í lagi að athuga ef gerð hafa verið einhver mistök. En að fara út í þessa aðgerð er eins og blaut tuska framan í þjóðina. Því ber þinginu að hætta við, sýna fram á að þetta séu hreinlega byrjendamistök hjá nýrri ríkisstjórn. Við eigum að sýna þjóðinni virðingu. Þetta er ekki það sem þjóðin er að biðja um.

Ég vona svo sannarlega að þegar fjöldi undirskrifta í söfnuninni verður kominn upp í 10%, sem hann mun án efa gera, að þá hlustum við. Þess vegna þurfum við að gefa þessu frumvarpi góðan tíma í þinginu og ég geri ekki ráð fyrir að það fari nokkuð í gegn óbreytt. Ég trúi því ekki að hinir ágætu nýju þingmenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins ætli að gera þetta sem sitt fyrsta verk. Ég vona að minnsta kosti í einlægni að svo verði ekki.