142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[16:40]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Hvað segja lögin? Í lögunum um stjórn fiskveiða, 1. gr., almennum ákvæðum, segir að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Þá er spurningin: Hvað vill þjóðin? Þjóðin er sammála um að það eigi að festa í stjórnarskrá að þjóðin eigi auðlindina. Lögspekingar hafa verið að velta þessu fyrir sér og sumir hverjir gagnrýnt það að þjóðin geti ekki átt neitt en það er útskýrt á mjög einfaldan hátt af mörgum öðrum lögspekingum að þá er það ríkiseign sem má ekki framselja, ríkiseign sem skal vera ævarandi eign þjóðarinnar eins og Þingvellir.

Hvernig getur þjóðin náð fram vilja sínum þegar kemur að þessu? Þjóðin kallar eftir því að fá eðlilegt verð fyrir eignina, markaðsverð sem ætti ekki að vera erfitt fyrir sjálfstæðismenn að samþykkja, a.m.k. ekki hugmyndafræðilega, að þjóðin, sem á auðlindina, fengi markaðsverð fyrir hana. Eins og hv. þm. Pétur Blöndal nefndi áðan væri það eðlilegast á markaði, það væri mögulega hægt að úthluta henni á ársgrundvelli og fólk gæti þar af leiðandi framleigt hana til þeirra sem vilja veiða. Það væri ein leið. Það eru alls konar mismunandi leiðir sem hægt er að fara að því marki að tryggja að þjóðin fái markaðsverð fyrir auðlindina sína. Það er það sem þjóðin vill.

Hvernig nær þjóðin fram vilja sínum í þessu máli? Ein leiðin er að kjósa flokka til Alþingis. Í þessu máli eru Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur með tillögu um hvað skuli gera, að veiðigjaldið skuli lækkað. Veiðigjaldið er í dag engan veginn markaðsvirði en þessir tveir flokkar vilja lækka það enn þá meira og það er ekki það sem þjóðin vill.

Það að kjósa flokka er því pakkadíll og menn fá ekki allt sem þeir vilja. En hvað getur þjóðin þá gert? Samkvæmt stjórnarskránni sem við höfum í dag getur þjóðin beðið forsetann — það er reyndar ekki í stjórnarskránni að þjóðin biðji forsetann, en það er forsetinn sem getur með málskoti sínu vísað máli til þjóðarinnar sem þá hefur neitunarvald. Þjóðin hefur neitunarvaldið, ekki forsetinn. Forsetinn hefur málskotsréttinn, þjóðin samþykkir svo eða synjar lögum sem koma frá Alþingi. Þetta er það sem þjóðin getur gert og hún hefur gert það, m.a. í Icesave. Hún hefur gert það núna margoft og við erum komin með ákveðinn smekk fyrir því, við kunnum að meta þetta. Forsetinn hefur sýnt að hann kann að meta það ef hann hefur nógu mikinn stuðning þjóðarinnar á bak við sig.

Nú er hafin undirskriftasöfnun, næstum því 8 þús. manns búin að skrifa undir. Ef við förum eftir frumvarpi stjórnlagaráðs ættu 10% þjóðarinnar að geta kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um að leggja fyrir þjóðina lög sem þingið hefði samþykkt. Það eru 22 þús. manns miðað við kjörskrá í dag þannig að það vantar eitthvað upp á. Það er kominn rúmlega einn þriðji á einum sólarhring. Það er gott, mjög gott. Það er mjög gott að við á þinginu þurfum að hugsa til þess að þjóðin er farin að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum um ákvarðanir okkar. Það þýðir að ákvarðanir okkar verða að vera vel ígrundaðar og endurspegla það sem við vitum að er vilji þjóðarinnar.

Þetta er staðan. Ég hvet þjóðina til að halda áfram að skrifa undir, halda áfram að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum. Þannig munum við hægt og rólega færa okkur í átt til beinna lýðræðis og seinna þurfum við að festa slík ákvæði í lög, ákvæði um að þjóðin sjálf geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að hafa milligöngumann sem er forsetinn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)