142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:18]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér grein fyrir því að ef eini tilgangur með breytingu á veiðigjaldi er að lækka það um 10 milljarða þarf ekki miklar upplýsingar úr kerfinu til þess að ná því fram í sjálfu sér, en ég vonast til þess að ráðherrann fari aðeins betur yfir það.

Annað atriði sem ég vildi líka nefna í því sambandi er að upplýsingasöfnun af þessu tagi er viðkvæm og eins og hæstv. ráðherra kom inn á í framsögu sinni er komið hér inn á persónuverndarsjónarmiðin og að ólík markmið geti stangast á. Það er ekkert óeðlilegt og engin nýlunda að menn þurfi að glíma við slík viðfangsefni. Hér er til dæmis lagt til og sagt í greinargerð að komið sé til móts við sjónarmið, t.d. úr bankakerfinu, með því að hafa þetta tímabundna heimild eða gera ráð fyrir að frumvarpið verði endurskoðað fyrir árið 2017, eins og er gert ráð fyrir.

Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann teldi ekki frekar koma til álita að þessi ákvæði í lögunum væru hreinlega tímabundin og rynnu út á einhverjum tilteknum tíma ef ekki yrðu gerðar sérstakar ráðstafanir og hvort þetta tímabil, fjögur ár, sé ekki dálítið langt fyrir bráðabirgðaráðstöfun. Gerir hæstv. ráðherra ekki ráð fyrir að búið verði að ráða bót á þessum skuldavanda áður en sú dagsetning rennur upp? Mér dettur í hug að kannski væri skynsamlegra að byrja alla vega með styttri tíma, t.d. tveggja ára gildistíma eða að lögin yrðu endurskoðuð eftir tvö ár.

Þetta er bara viðhorf inn í málið sem ég vil velta upp og vonast til að hæstv. ráðherra geti brugðist við og vonandi fá þau viðhorf einnig einhverja umfjöllun í hv. þingnefnd sem tekur málið til umfjöllunar.