142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:45]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að fjalla örstutt um það frumvarp sem hér liggur fyrir og vil þakka þeim þingmönnum sem hafa blandað sér í umræðuna. Það var sérstaklega áhugavert að heyra ræðu hv. þm. Kristjáns L. Möllers sem sat á sínum tíma í ríkisstjórn. Allt síðasta kjörtímabil vorum við sem sátum hér á þingi að reyna að nálgast lausn á stóra verkefninu um skuldavanda heimilanna. Í allri þeirri vinnu stóðum við frammi fyrir því að ekki voru til upplýsingar. Þegar menn eru að reyna að taka ákvarðanir til að leysa verkefni sem ekki liggur nákvæmlega fyrir hvert er, er ljóst að þeir eru í hálfgerðri blindni að reyna að laga eitthvað sem er bilað. Það er aldrei gott.

Á síðasta kjörtímabili voru í tvígang lögð fram þingmál er vörðuðu svipuð atriði og hér, en þau mál voru ekki kláruð. Meðal annars snerust aðalathugasemdirnar um friðhelgi einkalífsins og persónuverndarsjónarmið, um það stóð vafinn. Það eru þau atriði sem helst þurfa skoðunar við í þessu máli og þau atriði sem ég geri ráð fyrir að verði lögð mest áhersla á í vinnu þingnefnda sem munu fara yfir það.

Það er algerlega ljóst að til framtíðar litið er nauðsynlegt að hægt sé að nálgast upplýsingar um efnahagsleg málefni, ekki síst málefni er varða efnahag heimilanna, á einhverjum stað þar sem menn geta treyst því að þetta séu upplýsingar sem hægt er að byggja ákvarðanir á. Við erum ekki í þeirri stöðu í dag.

Sú upplýsingasöfnun sem vísað var til í umræðunni sem Seðlabanki Íslands fór í á sínum tíma var ágæt svo langt sem hún náði en nýttist í rauninni ekki Alþingi í þeim ákvörðunum sem taka þurfti á síðasta þingi vegna þess að öllum upplýsingum var eytt og það var ekki hægt að gera neinn samanburð á því hvernig málin voru að þróast.

Ég geri mér grein fyrir því að það er erfitt að smíða regluverk utan um þessi viðkvæmu mál sem fullnægja öllum sjónarmiðum um persónuvernd. En það er algjörlega ljóst að það verður að minnsta kosti ekki gert ef menn reyna ekki. Þannig að þetta mál er fram komið. Ég trúi því og treysti að þingheimur allur muni taka þátt í því að reyna að skoða þetta vel og gæta að persónuverndarsjónarmiðum.