142. löggjafarþing — 8. fundur,  19. júní 2013.

jafnlaunaátak og kjarasamningar.

[15:07]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka forseta fyrir skelegg inngangsorð í upphafi fundar og fagna því að forseti ætli með myndarlegum hætti að halda áfram undirbúningi fyrir 100 ára afmæli kosningarréttarins.

Ég vil jafnframt þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að samþykkja sérstaka umræðu um jafnlaunamál á þessum hátíðisdegi íslenskra kvenna.

Í dag minnumst við þess að 98 ár eru frá því að konur fengu kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis. Þetta eru ein merkustu tímamót íslenskrar kvennasögu og mikilvægt að við minnumst þeirra á Alþingi. Við búum í samfélagi þar sem konur hafa haslað sér völl á nær öllum sviðum samfélagsins. Lagalegt jafnrétti er nánast í höfn þó að við búum ekki við jafnrétti í raun. Skýrustu birtingarmyndir kynjamisréttis eru kynbundið ofbeldi og kynbundinn launamunur. Þetta misrétti er svartur blettur á samfélaginu.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun vinna markvisst að því að ná raunverulegu jafnrétti fyrir alla. Ríkisstjórnin mun endurmeta þær aðferðir sem notaðar hafa verið í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna með það að markmiði að bæta árangur á sviði jafnréttismála og vinna gegn launamun kynjanna.“

Ég fagna því auðvitað að ríkisstjórnin ætli að vinna markvisst að jafnrétti fyrir alla en hingað til hefur ekki komið fram í hverju endurmatið á aðferðum felst. Ákvæði jafnréttislaga eru skýr. Kynbundinn launamunur er ólöglegur. Það er því vægast sagt þreytandi fyrir konur að þurfa ár eftir ár að berjast fyrir sjálfsögðum mannréttindum. Þessu ranglæti verður að linna. Gera verður þá kröfu til ríkisvaldsins að það sýni forustu í þessum efnum og taki á vandanum með krafti. Lægst launuðu stéttirnar í landinu samkvæmt könnunum nokkurra verkalýðsfélaga innan Starfsgreinasambandsins eru konur í umönnunarstörfum hjá ríkinu. Þær hafa tekið á sig kjararýrnun síðustu ár í gegnum skert starfshlutfall en álagið hefur aukist ef eitthvað er.

Í nýlegri launakönnun SFR mælist kynbundinn launamunur nú 12% og minnkar um 1% á milli ára. Frá síðustu kjarasamningum í maí 2011 hafa grunnlaun kvenna hækkað hlutfallslega meira en karla en munurinn er neikvæður þegar litið er til heildarlaunanna.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga talar í þessu samhengi um ráðuneytisbundinn launamun og vísar þá til þess að laun séu almennt lægri hjá þeim stofnunum sem heyra undir ráðuneyti sem fara með velferðarmál og menntamál. Í þeim málaflokkum vinna stóru kvennastéttirnar. Heilbrigðisstéttirnar hafa ekki síst orðið fyrir barðinu á því.

Til þess að taka á þessum vanda var farið í sérstakt jafnlaunaátak í janúar síðastliðnum þar sem veitt var svigrúm til hækkunar kvennastétta á heilbrigðisstofnunum ríkisins innan stofnanasamninga eða tímabundið innan núgildandi kjarasamnings en að frambúðarlausn verði fundin í næstu kjarasamningum.

Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hyggst ríkisstjórnin halda áfram því jafnlaunaátaki á heilbrigðisstofnunum sem hófst í tíð fyrri ríkisstjórnar?

Í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur var undirrituð viljayfirlýsing með aðilum vinnumarkaðarins um að eyða kynbundnum launamun. Í henni fólst ákvörðun um að setja á fót aðgerðahóp sem á meðal annars að samræma rannsóknir á kynbundnum launamun, gera áætlun um kynningu jafnlaunastaðals, annast upplýsingamiðlun og ráðgjöf um launajafnrétti kynjanna til stofnana og fyrirtækja.

Þá samþykkti Alþingi tillögu velferðarráðherra um aðgerðaáætlun um launajafnrétti kynjanna. Alþingi samþykkti síðan í fjárlögum fyrir árið 2013 árlega fjárveitingu til ráðningar tveggja sérfræðinga til að halda utan um þetta verkefni.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hver er staðan á vinnu um innleiðingu jafnlaunastaðals og útreikning á kynbundnum launamun til undirbúnings kjarasamninga?

Fram undan eru kjarasamningar þar sem stóru kvennastéttirnar, sem hafa haldið íslensku samfélagi gangandi á erfiðum tímum, vænta leiðréttingar á kynbundnum launamun.

Verður áhersla lögð, spyr ég hæstv. fjármálaráðherra, á jöfnun launa milli kvenna- og karlastétta í komandi kjarasamningum af hálfu ríkisins?