142. löggjafarþing — 8. fundur,  19. júní 2013.

jafnlaunaátak og kjarasamningar.

[15:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að brydda upp á þessu þarfa umræðuefni og óska öllum konum og okkur öllum til hamingju með daginn. Það væri gleðilegt að geta nú, 98 árum eftir að konungur staðfesti samþykkt Alþingis um kosningarrétt kvenna, fullyrt að fullkomnu jafnrétti væri náð á öllum sviðum. En við eigum talsvert í land. Konur eru mun færri í hópi stjórnenda fyrirtækja. Þær eru enn í minni hluta hér á þingi og víðar gætir misvægis.

Þótt mikið starf hafi verið unnið til að trygga lög um jafnan rétt karla og kvenna glímum við einnig enn við nokkurn launamun kynjanna eins og málshefjandi bendir á og það þrátt fyrir áratugalanga baráttu og mikla umræðu um það mál. Vissulega hefur mikill árangur náðst víða en ég treysti því að við sem samfélag munum ekki láta staðar numið fyrr en við getum fullyrt að óútskýrðum launamun kynjanna hafi verið útrýmt.

Hér er spurt hvort ríkisstjórnin hyggist halda áfram jafnlaunaátakinu. Um þetta er það að segja að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er sérstaklega fjallað um jafnréttismálin eins og hér hefur reyndar verið komið inn á. Í samræmi við þá stefnumörkun hefur, innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins, verið unnið að frekari greiningu og mati á þeim aðferðum sem helst hefur verið beitt þegar kemur að launamun kynjanna. Þó að þeirri vinnu miði ágætlega er því miður ekki orðið tímabært að setja fram tillögur á þessu stigi málsins enda stutt síðan stjórnarskipti urðu.

Hvað varðar vinnu samkvæmt viljayfirlýsingu ríkis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins, um innleiðingu jafnlaunastaðals og útreikning á kynbundnum launamun vegna kjarasamninganna fram undan, þá er það rétt, sem hér hefur jafnframt komið fram, að ráðnir voru tveir starfsmenn til fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem er ætlað að sinna þessu verkefni af hálfu ríkisins. Eins hefur sérstök nefnd, skipuð fulltrúum heildarsamtaka opinberra starfsmanna, Félags forstöðumanna ríkisstofnana og fjármála- og efnahagsráðuneytis, tekist á við það verkefni að setja fram hvaða málefnalegu forsendur skulu lagðar til grundvallar við mat á launamun kynjanna. Í þessari nefnd hafa verið haldnir tíu fundir og nefndin stefnir á að ljúka störfum fyrir 1. október næstkomandi. Undirbúningi að innleiðingu jafnlaunastaðals miðar líka vel og hefur þó nokkur fjöldi stofnana lýst sig tilbúinn í það ferli.

Eins og þeir vita sem kynnt hafa sér staðalinn er launaúttekt á stofnun fyrsta skrefið í átt að jafnlaunavottun og er vinna við slíkar úttektir þegar hafin. Málshefjandi spyr hvort ríkisstjórnin hyggist leggja sérstaka áherslu á jöfnun launa milli kvenna- og karlastétta í komandi kjarasamningum. Svarið er að að sjálfsögðu verður lögð áhersla á að laun verði byggð á málefnalegum forsendum þar sem kynferði á ekki að hafa áhrif. Hvernig stéttarfélögin taka á þessum málum skiptir mjög miklu máli. Ef hækkun kvennastétta sem gætu talist hafa setið eftir í launaþróun verður mætt með enn frekari hækkun stétta sem telja má til hefðbundinna karlastétta liggur í augum uppi að launamunurinn viðhelst.

Reyndar má bæta því við að hjá ríkinu eru ekki margar starfsstéttir sem eru að meiri hluta skipaðar körlum. Konur eru aftur á móti í meiri hluta í fjölmörgum starfsstéttum, enda hafa konur verið fleiri í námsgreinum sem skila þeim störfum í heilbrigðis- og félagsþjónustu og í menntakerfinu. Kynbundið náms- og starfsval er því ein af skýringum þess að illa hefur gengið að útrýma kynbundnum launamun.

Hér má líka nefna að skráningu upplýsinga um þætti sem hafa áhrif á laun hefur því miður verið ábótavant hjá stofnunum ríkisins og nú er í gangi sérstakt átak til að bæta þá skráningu með aðkomu Hagstofunnar og Fjársýslu ríkisins auk fjármála- og efnahagsráðuneytisins.