142. löggjafarþing — 8. fundur,  19. júní 2013.

jafnlaunaátak og kjarasamningar.

[15:17]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir byrja þessa umræðu á því að óska íslenskum konum til hamingju með daginn og reyndar samfélaginu öllu. Ég tel að þau tímamót sem hér er minnst séu mikilvæg fyrir þróun samfélagsins alls, bæði fyrir konur og karla og mikilvægt að halda því til haga.

Baráttan gegn kynbundnum launamun er að sjálfsögðu viðvarandi verkefni, hefur staðið yfir lengi og bæði ríkisstjórnir og sveitarstjórnir hafa verið að glíma við þetta um langt skeið. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að ýmislegt hefur áunnist í þeim efnum en það er líka rétt hjá hæstv. ráðherra að við höfum ekki náð á endastöð hvað þetta varðar. Þess vegna er þetta áfram viðvarandi verkefni þó að maður mundi gjarnan vilja sjá þróunina á þann veg að verkefnið yrði leyst í eitt skipti fyrir öll.

Stjórnvöld hafa ýmis ráð í sínu búri til að vinna að þessu viðfangsefni. Eitt er til dæmis verkefni sem hefur verið kallað kynjuð hagstjórn. Stundum hefur verið gert grín að þessu hugtaki en engu að síður er það mikilvægt tæki sem stjórnvöld hafa yfir að ráða og hefur verið unnið að, meðal annars í tíð síðustu ríkisstjórnar, og ég vonast til þess að áfram verði haldið við það verkefni.

Jafnlaunaátakið, sem hv. málshefjandi hefur rætt sérstaklega, er mikilvægt og ég skil hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra á þann veg að áfram verði unnið að því, bæði á vettvangi ráðuneytisins og einnig í komandi kjarasamningum. Það viðhorf sem samningsaðilar, og þá stórir samningsaðilar eins og ríki og sveitarfélög, sýna í þessu efni skiptir máli. Síðan er ástæða til að velta fyrir sér hvort ýmsar lagaumbætur þarf til til að vinna gegn kynbundnum launamun og ég mun koma betur að því hér á eftir.