142. löggjafarþing — 8. fundur,  19. júní 2013.

jafnlaunaátak og kjarasamningar.

[15:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Í dag er kvenréttindadagurinn. Ég óska konum ekki til hamingju með hann. Mér finnst ganga of hægt að ná fram jafnrétti kynjanna, allt of hægt. Jafnrétti er jafnvel að hraka. Eftir nýjustu upplýsingum er jafnrétti að minnka, misréttið er að aukast.

Það eru ekki bara launin sem við þurfum að horfa á, við þurfum líka að horfa á framgang kvenna innan fyrirtækja. Hvernig ná þær hærri stöðum? Þar er pottur verulega brotinn og það er hvergi mælt. Það sjáum við best á aðalfundi Seðlabankans þar sem eru nánast eingöngu karlmenn.

Ég tel mjög mikilvægt að jafnréttis sé gætt í landinu. Ekki viljum við karlmenn að mæður okkar, systur, dætur, frænkur og eiginkonur séu með lægri laun en aðrir bara af því að þær eru konur. Það er líka efnahagslegt mál vegna þess að þegar misrétti er í launum er hæfasti einstaklingurinn ekki að gegna starfinu. Þjóðfélagið allt tapar á því.

Ég tel að hæstv. fjármálaráðherra hafi gullið tækifæri til að taka á þessum málum í kjarasamningum sem standa fyrir dyrum og bæta stöðu þeirra kvenna sem eru í umönnunarstörfum, sem eru mjög erfið störf en mjög illa borguð, og bæta þá stöðu.

Ég bind miklar vonir við jafnréttisvottunina — að fyrirtæki og stofnanir fái jafnréttisvottun. Ég er mjög ánægður að heyra hjá hæstv. ráðherra að hæstv. ríkisstjórn er að vinna að því að ráðuneytin og jafnvel stofnanir ríkisins fái jafnlaunavottun sem ætti náttúrlega að gilda um allt þjóðfélagið. Jafnlaunavottun tryggir að karlar og konur séu með sambærileg laun.