142. löggjafarþing — 8. fundur,  19. júní 2013.

jafnlaunaátak og kjarasamningar.

[15:31]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir byrja á að óska íslenskum konum og Íslendingum öllum til hamingju með daginn og ég óska Íslendingum og öllum, hvers kyns sem þeir eru, til hamingju með daginn. Ójafnrétti og mismunun sem byggð er á kynferðislegum forsendum er mein, er slæmt fyrir samfélagið. Það hamlar vexti og viðgangi samfélagsins.

Ég eins og fleiri hér inni er tiltölulega nýr á hinum pólitíska vettvangi og þá staldrar maður við, skoðar tilgang sinn og veltir fyrir sér styrkleikum og veikleikum. Það er augljóst að ég er miðaldra karlmaður. Ég er þeirrar skoðunar að offramboð sé á sjónarmiðum miðaldra karlmanna. Það er alla vega ljóst að ég er ekki kvenmaður og ég lít á það sem minn helsta pólitíska veikleika að vera ekki kvenmaður.

En ég trúi líka á að hægt sé að vinna með bæði veikleika og styrkleika og því legg ég mikið upp úr því í eigin viðhorfum að rækta þau viðhorf sem eru ekki náttúrulegust og ég held að það sé mikilvægt í samfélaginu öllu. Launamismunur er mismunun og ójafnrétti er óréttlátt hvaða nafni sem það nefnist. Margt hefur áunnist í réttindabaráttu kvenna og í minnkun launamismunar á Íslandi en það að hlutirnir gætu verið verri er aldrei afsökun fyrir því að vera sáttur við stöðuna. Við þurfum að berjast áfram. Þær bætur og þær breytingar sem orðið hafa hafa ekki komið af sjálfu sér. Þær hafa komið af baráttu og ef það lagar sig ekki sjálfkrafa verður að vinna áfram í því. Ég brýni hæstv. ríkisstjórn og þingheim allan til góðra verka.