142. löggjafarþing — 8. fundur,  19. júní 2013.

jafnlaunaátak og kjarasamningar.

[15:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er því miður þannig í þessum málaflokki að það dugar ekki eitt og sér að hafa uppi háleit markmið og hástemmdar yfirlýsingar. Ég efast til dæmis ekki um að sú ríkisstjórn sem nú er nýfarin frá völdum hafi ætlað sér að ná enn meiri árangri en náðst hefur og vissulega lögðu menn sig fram. En þetta er málaflokkur sem því miður virðist þannig vaxinn að það tekur tíma að ná árangri. Þess vegna hafa svo margir komið inn á það í umræðunni í dag að við þurfum að halda áfram og gefast ekki upp.

Þegar við ræðum um kynbundinn launamun í þessari umræðu erum við bæði að ræða um það þegar tveir einstaklingar hvor af sínu kyni gegna nákvæmlega sambærilegu starfi en þiggja ekki fyrir það sömu launin og í sömu andrá erum við líka að ræða um það að sumar stéttir, sem fyrst og fremst eru skipaðar af konum í dag, virðast almennt vera lægra launaðar en aðrar stéttir, sem fyrst og fremst eru skipaðar körlum. Þetta er líka hluti vandans og verður að taka með í umræðuna um það hvernig hægt er að bregðast við þegar kemur að gerð kjarasamninga.

Varðandi jafnlaunaátakið stöndum við frammi fyrir þeim vanda að ákvarðanir um það eru teknar eftir að fjárlög fyrir yfirstandandi ár voru samþykkt og stofnanir sem hafa fengið það verkefni að hrinda átakinu í framkvæmd hafa ekki séð mikið svigrúm innan þess ramma sem þær hafa á yfirstandandi ári til að bregðast við óskum um þátttöku í átakinu. Við þessu verður ekki brugðist með öðrum hætti en að auka fjárveitingar, annars eru menn í raun að taka lán fyrir átakinu. Við höfum í sjálfu sér ekki séð færi til þess að lofa frekari framlögum á fjáraukalögum en við styðjum viðleitnina og munum finna okkar leiðir til þess að hrinda þessum áformum í framkvæmd.