142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka árnaðaróskir og góðar kveðjur og óska forseta til hamingju með starfið.

Ég kem hingað upp til að vekja athygli á erfiðu máli, heimilisofbeldi. Í nýútgefinni ársskýrslu UNICEF um velferð barna og unglinga í heiminum er að finna sláandi tölur um viðhorf ungra kvenna til heimilisofbeldis. Ekki er endilega um að ræða lönd þar sem aðgangur kvenna að upplýsingaveitum svo sem interneti sé skertur.

Í Jórdaníu er aðgangur ungra kvenna að upplýsingum mjög góður en þar finnst 91% kvenna á aldrinum 15–19 ára sjálfsagt að eiginmaður beiti konu sína ofbeldi ef hún til dæmis brennir við matinn eða neitar honum um kynlíf. Ef við lítum á tölur hérlendis sjáum við að fjöldi þolenda og gerenda í heimilisofbeldi eykst við 15 ára aldursmörkin. Flestir þolendur eru á aldrinum frá 18–35 ára.

Ég tek hérna sérstaklega fyrir konur og viðhorf þeirra þar sem þær eru í miklum meiri hluta þolenda. Stóra talan í skýrslu UNICEF er fjöldi ungra kvenna á aldrinum 15–19 ára í heiminum öllum sem finnst heimilisofbeldi sjálfsagt, en það eru 49%. Að horfa á þetta stórt hlutfall ungra kvenna sem hafa þetta viðhorf vekur hjá manni miklar áhyggjur því að þær ungu konur munu væntanlega bera sama viðhorf áfram út lífið og jafnvel miðla því til barna sinna.

Það eru greinilega röng skilaboð sem börn eru að fá í dag. Við verðum að beita okkur í forvörnum og úrræðum svo þetta ástand viðgangist ekki áfram. Í því samhengi má benda á að hérlendis eru börn viðstödd í nærri einu af hverju þremur tilkynntum atvikum um heimilisófrið.

Með þessari ræðu vil ég biðla til þingsins að vinna ötullega og af mikilli staðfestu í málum er snerta heimilisofbeldi og aðkomu barna í þeim málum.