142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil eins og síðasti hv. ræðumaður koma hér inn á forgangsmál ríkisstjórnarinnar og sérstaklega umræðu um sjávarútvegsmálin, veiðigjöldin.

Komið hefur fram að þetta veiðigjaldamál — það sem hv. þm. Helgi Hjörvar kallaði gjafabréf ríkisstjórnarinnar til útgerðarinnar upp á 10 milljarða — er eitt helsta forgangsmál núverandi hæstv. ríkisstjórnar. Málið er keyrt áfram í þinginu inn í nefnd og því miður er enginn raunverulegur tími gefinn til að vinna málið. Ég hélt að við hefðum öll rætt það, bæði á síðasta þingi og þegar í upphafi þessa, að menn þyrftu að bæta vinnubrögðin hér í þinginu og bæta lagasetninguna. Mér finnst þetta ekki bera merki þess að mikill metnaður sé í því efni.

Nú hafa safnast um 27 þúsund undirskriftir á netinu þar sem hvatt er til þess að þessi lög verði ekki samþykkt en að öðrum kosti verði forseta lýðveldisins afhentar undirskriftir þar sem hann verður hvattur til að synja lögunum staðfestingar. Hann hefur áður gert slíkt eins og kunnugt er og tekið við undirskriftum þar að lútandi. Hann hefur reyndar sjálfur sagt að spurningin um arð þjóðarinnar af auðlindunum sé spurning sem sé vel til þess fallin að spyrja þjóðina. Að sjálfsögðu verður horft mjög rækilega á það hver viðbrögð hans verða ef málið fær afgreiðslu hér í þinginu.

Mín afstaða er engu að síður sú að það sé þingið sem eigi að setja lög í þessu landi og það sé þingið sem eigi að taka afstöðu til undirskriftalista af þeim toga sem hér eru í gangi, að hv. atvinnuveganefnd verði að fá þessar undirskriftir inn til sín til að hún taki afstöðu. Ég tel miklu eðlilegra í okkar stjórnskipun að það sé þingið sem taki afstöðu af þessum toga frekar en það sé lagt í hendurnar á einum manni suður á Bessastöðum, mér finnst það ekki mjög lýðræðislegt í sjálfu sér.

Ég vil hvetja til þess að atvinnuveganefnd geri það en fari rækilega yfir þetta mál, herra forseti, og fái undirskriftirnar til sín og taki afstöðu til þeirra á þeim vettvangi.