142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Herra forseti. Það hefur orðið heilsuvakning á Íslandi á síðustu árum. Auk mataræðis og næringarvitundar spila íþróttir þar stærstan hluta. Íþróttir eru ekki bara afreksíþróttir eða sjónvarpsefni. Með leyfi forseta segir í 1. gr. íþróttalaga:

„Í lögum þessum merkja íþróttir hvers konar líkamlega þjálfun er stefnir að því að auka líkamlegt og andlegt atgervi, heilbrigði og hreysti.“

Íþróttir fá að mínu mati allt of lítinn bita af fjármagni velferðarkökunnar. Ég fullyrði að til lengri tíma litið verði sparnaður með fjárfestingu í heilsu Íslendinga til íþróttaiðkunar en einnig forvörnum og fræðslu, forvörnum gagnvart vímuefnum, heilsuhraki og sjúkdómum, og leiði til samfélagslegrar virkni einstaklingsins. Rannsóknir sýna beina tengingu milli skipulags íþrótta og tómstundastarfs og vímuefna og einnig minna brottfalls úr skóla.

Íþróttahreyfingin er fjölmennasta fjöldahreyfing landsins og hélt upp á aldarafmæli í janúar á síðasta ári. Sem sjálfboðaliða í íþróttahreyfingunni langar mig að minnast látins vinar. Ólafur E. Rafnsson, 6. forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, er látinn. Hann tók við embætti árið 2006 og er minnst fyrir göfugt og óeigingjarnt starf í þágu íþrótta í landinu. Hans skarð verður vart fyllt. Ég votta Ólafi virðingu mína og þakka honum fyrir hans frábæru störf í þágu íþrótta á undanförnum árum. Einnig votta ég fjölskyldu hans innilega samúð mína. Íslandi allt.