142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Hv. 7. þm. Suðurk. ræddi hér áðan um svarta atvinnustarfsemi og er það vel. Undanskot frá skatti er alvarlegt vandamál jafnt hérlendis sem erlendis. Í leiðara maíheftis Tíundar, blaðs ríkisskattstjóra, er talað um þjóðfélagsmein sem étur samfélagið innan frá.

Svo vitnað sé orðrétt í Tíund, með leyfi virðulegs forseta:

„Aldrei hefur verið mikilvægara en nú að taka á slíku meini með skjótvirkum hætti. Enn eru sömu einstaklingar að hefja atvinnurekstur undir sömu auðkennum þar sem gamla félagið er látið sitja eftir eignalaust með skattskuldir. Er ástæða til að velta fyrir sér hvort ekki þurfi við þessar aðstæður skjótvirkari úrræði í stjórnsýslunni en nú eru til staðar. Síðast en ekki síst þarf að verða vitundarvakning meðal þjóðarinnar um hvað skattundanskot og bótasvik eru mikið mein sem bitnar harðast á grunnstoðum samfélagsins.“

Í leiðara Morgunblaðsins þann 18. maí sl., sem ber heitið „Reikningar annarra“, segir að undanskot frá skatti leiði til þess að þorri landsmanna borgi aðra reikninga en sína eigin. Þetta er rétt. Menn koma sér hjá skattgreiðslum með því að ýta reikningum sínum yfir á samborgara sína.

Ýmislegt hefur áunnist í skatteftirliti á undanförnum árum. Oft hefur verið fjallað um málið hér á þingi og hinir ýmsu hagsmunaaðilar hafa látið það til sín taka. En betur má ef duga skal. Stórauka þarf mannafla hjá skattstjóra til að hann geti sinnt eftirlitshlutverki sínu. Þeir peningar sem varið er í skatteftirlit skila sér margfalt til baka.

Í dag starfa um 30 manns hjá ríkisskattstjóra við þetta eftirlit. Sjálfur telur hann að ef vel ætti að vera þyrftu um 50 manns að starfa þar. Hér vantar því mikið upp á.

Guðni Björnsson, viðskiptafræðingur hjá ríkisskattstjóra, hefur tekið saman árangur herts eftirlits með skattskilum og þar koma fram sláandi tölur. Á síðustu fjórum árum voru að meðaltali 2.000 mál til skoðunar á ári hjá skattstjóra og ríkisskattstjóra. Á síðasta ári hóf eftirlitssvið ríkisskattstjóra vinnu við 481 mál.

Á sama tíma og við lækkum skatta og önnur gjöld á ákveðnar atvinnugreinar (Forseti hringir.) er hávær orðrómur um stórfelld undanskot frá skatti. (Forseti hringir.) Það hlýtur að vera krafa okkar að tekið sé á þessum málum.