142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla, eins og hv. þingmenn Ásmundur Friðriksson og Karl Garðarsson hér áður, að ræða um ferðaþjónustuna. Gífurleg fjölgun hefur orðið á ferðamönnum. Á árunum 2011 og 2012 komu 100 þúsund fleiri ferðamenn hvort ár en árið þar á undan. Sú er aukningin, 100 þúsund. Þetta hlýtur að skapa mikla atvinnu. Það þarf að búa um allt þetta fólk, það þarf að elda fyrir það mat, það þarf að þrífa og það þarf að leiðsegja. En ég furða mig á því að ég sé hvergi auglýsingar um vinnu í þessari grein. Ég furða mig á því. Það hlýtur að þurfa þúsundir manna til að sinna þessum aukna fjölda ferðamanna, bara aukningunni einni og sér. Ég spyr: Hvar auglýsir ferðaþjónustan eftir fólki? Það vill svo til að ég er í tengslum við nokkuð margt fólk og ótrúlega margt fólk sem er atvinnulaust, fær ekki vinnu og vill fá vinnu. Það spyr sig: Hvar er auglýst?

Gefið hefur verið í skyn að ekki sé farið að kjarasamningum, gefið hefur verið í skyn að skattalög séu ekki virt og það hefur líka verið gefið í skyn að hugsanlega séu gjaldeyrishöft ekki virt í þessum geira. Ég tel mjög brýnt að unnið sé að því að finna út úr því og laga þá stöðu.

Þessi mikli fjöldi ferðamanna skaðar landið. Það kemur til með að kosta óhemjufé að gera ferðamannastaðina þannig úr garði að þeir ráði við þennan mikla fjölda. Við þurfum að standa þannig að verki að ferðaþjónustan gefi þjóðinni hagsæld, dragi úr atvinnuleysi og veiti ferðamönnum góða þjónustu. Það verðum við að gera.