142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

ummæli í störfum þingsins og framhald sumarþings.

[11:15]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Eins og forseti vakti athygli á fyrr í dag hafa komið til umræðu og dagskrár fjöldamörg mál, m.a. frá ríkisstjórninni. Dagskráin hefur verið fullsetin alla þessa daga og í gær var sérstakur nefndadagur til að takast á við öll þau fjöldamörgu mál sem þá voru komin til nefndar. Það hefur ekki tafið fyrir þingstörfum að hingað hafa ekki borist mál, m.a. frá hæstv. ríkisstjórn.

Það er alveg rétt sem hér var nefnt, forseti hefur lagt mikla áherslu á að mál komi inn í tæka tíð og hefur lagt sig fram um að þannig geti það orðið og vekur athygli á því að ekki eitt einasta mál fram að þessu hefur verið tekið á dagskrá með afbrigðum. Hér er því um að ræða undantekningu sem forseti vonar að verði sem fæstar.