142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[11:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir greinargerðina fyrir máli þessu. Þetta er ekki eina málið af málalista hæstv. ráðherra sem við höfum saknað í þinginu og væri gott að fá upplýsingar um það hvort frumvarpa um skyldutryggingu lífeyrisréttinda sé að vænta annars vegar og hins vegar um ráðstafanir í ríkisfjármálum, og hvenær þá þannig að við getum áttað okkur betur á framvindu þingstarfanna. Líka væri gott að fá eilítið nánari upplýsingar um hvað felst í ráðstöfunum í ríkisfjármálum, hvort það séu óumdeild atriði eins og lækkun virðisaukaskatts á barnaföt. Eru það ef til vill stimpilgjöldin eða einhverjar allt aðrar og miklu umdeildari breytingar? Það væri gagnlegt að fá upplýsingarnar til að átta sig á því hvernig best sé að haga þingstörfum næstu daga, átta sig á því hvenær von er á þessum málum frá hæstv. ráðherra og hvernig þau eru í aðalatriðum í laginu.

Það fer ekki vel á því að taka á dagskrá frumvarp um málefni Seðlabankans með afbrigðum. Það eru aðeins örfá ár síðan hv. Alþingi samþykkti breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands sem leiddu til gjaldþrots bankans. Það hefði átt að vera þingheimi til áminningar um að fara varlega þegar gerðar eru breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands og gæta að öllum formsatriðum.

Þetta mál er út af fyrir sig ekki nýtt og varðar heimildir sem bankinn hefur verið að sækja og hefur í sjálfu sér ekki verið pólitískur ágreiningur um í þinginu. Ég vænti þess að góð samvinna geti tekist um vinnslu málsins í nefndinni, en ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort hér sé ekki verið að veita bankanum sömu heimildir til upplýsingaöflunar hjá fyrirtækjum og einstaklingum eins og Sjálfstæðisflokkurinn var á síðasta kjörtímabili eindregið andvígur að væru veittar þegar svipuð málefni voru til umfjöllunar.