142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[11:49]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Við ræðum í miklu bróðerni, eins og síðustu orðaskipti báru með sér, þetta viðfangsefni sem ég held að allir séu sammála um að sé stórt og afdrifaríkt fyrir okkur, þ.e. tengist náttúrlega þessu frumvarpi, miðlægt hlutverk Seðlabankans sem snýr að undirbúningi undir næstu skref í afnámi gjaldeyrishaftanna og vinda ofan af hinum gríðarlegu krónustöðum erlendra aðila hér í hagkerfinu.

Ég tel að þetta frumvarp sé eðlilegt framhald af ýmsu sem hefur verið gert að segja má undanfarin eitt til þrjú ár á þessu sviði. Þar má auðvitað nefna lagabreytinguna í mars 2012 sem skipti afar miklu máli og hefur lagt grunninn að þeirri stöðu sem við þó erum í gagnvart því að hafa tök á þessum hlutum. Það áttuðu sig ekki allir á því á sínum tíma hversu gríðarlega mikilvæg sú breyting var að færa eignir búanna inn undir gjaldeyrishöftin og sama má segja um þá niðurstöðu frá síðasta vetri að framlengja heimild til að viðhafa fjármagnshöft og gera hana ótímabundna. Seðlabankinn hefur áður óskað eftir því að staða hans sé styrkt að þessu leyti og það kom í minn hlut sem efnahags- og viðskiptaráðherra á sínum tíma að flytja meðal annars frumvörp þar sem ráðuneytið og Seðlabankinn unnu saman og miðuðu að því sama sem er hér undir að hluta til, þ.e. að styrkja stöðu Seðlabankans til að afla upplýsinga og gagna þannig að hann gæti greint betur stöður í kerfinu og varast áhættur. Það frumvarp sætti reyndar andstöðu, að mínu mati að óþörfu, og náði ekki fram að ganga. Hér eru flutt hliðstæð ákvæði að mestu leyti sem treysta stöðu Seðlabankans hvað það varðar að geta sótt sér upplýsingar í fjármálakerfið og hægt að koma við viðurlögum ef ekki er orðið við því.

Ég tel að efnisatriði frumvarpsins séu í sjálfu sér öll eðlileg við þessar aðstæður. Það má segja að þetta snúi í fyrsta lagi að reglusetningunni um lausafjárkröfur sem eru gerðar til fjármálastofnana og að hægt sé að sundurliða þær kröfur eftir því hvort um erlendar eða innlendar stöður er að ræða, þ.e. að setja reglur annars vegar fyrir lausafjárstöðu í innlendri mynt og hins vegar í erlendum gjaldmiðlum og sömuleiðis reglur um stöðuga fjármögnun, sem hefði gjarnan mátt vera til staðar hér á árum áður, að menn gætu ekki þanið út banka á skammtímafjármögnun og búið til gríðarlegar áhættur annars vegar í tímaháðum skilningi og hins vegar í gegnum gjaldeyrismisvægi og annað í þeim dúr.

Síðan er lögð til sú breyting sem er í sjálfu sér, eins og er sagt í frumvarpinu, ekki endilega efnisbreyting frá því hvernig menn hafa túlkað lögin um Seðlabanka Íslands þ.e. að hann skuli stuðla að fjármálastöðugleika. Það er lagt til í frumvarpinu að því sé skotið inn í 4. gr. laga um Seðlabanka Íslands þar sem fjallað er um viðfangsefni Seðlabankans, svo sem að varðveita gjaldeyrisvarasjóð, stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þar með talið greiðslukerfi í landinu og við útlönd.

Það er alveg rétt sem kemur fram í greinargerð að menn hafa auðvitað lagt þann skilning í að þessu tengdist sjálfkrafa það að Seðlabankinn hefði miðlægu hlutverki að gegna hvað varðar að tryggja fjármálastöðugleika. Þetta er hins vegar ekki breyting á 3. gr. þar sem skilgreind eru meginmarkmið Seðlabanka Íslands og það er áfram að stuðla að stöðugu verðlagi. Verðlagsstöðugleikamarkmiðið er því áfram meginmarkmið, eins og ég skil þetta, og það er ekki hróflað við því. Þar með er viðhaldið þeirri lendingu sem varð í lögunum um Seðlabankans frá 2001 eftir mikið starf, en áður var þetta með öðrum hætti, eins og kunnugt er, og þá voru meginmarkmið Seðlabankans samsettari. Þar kom þá líka til gengisstöðugleiki, að tryggja fulla atvinnu og bestu nýtingu framleiðsluþáttanna eða hvernig það var. Frá því hurfu menn í anda þeirra tíma sem uppi voru upp úr aldamótunum og lögum um Seðlabanka var breytt víða í heiminum í anda þeirrar hugmyndafræði sem þá réð mjög ríkjum, að þessu öllu ætti að henda fyrir borð og það eina sem skipti máli væri verðlagsstöðugleiki. Ég hafði á þeim tíma talsverðar efasemdir um þetta, ég sat í nefndinni sem undirbjó frumvarpið, og hafa þær efasemdir mínar heldur betur styrkst. Ég er þeirrar skoðunar að það sé of þröng skilgreining að ætla Seðlabanka það eina meginmarkmið að stuðla að stöðugu verðlagi og er þó ekkert gert lítið úr því.

Á köflum urðu menn svo bókstafstrúar í þeim efnum að þeir ýttu í raun og veru öllum öðrum mikilvægum breytum til hliðar eins og þær skiptu ekki máli, þar með talið sveiflur í gengi sem aftur leiddu auðvitað inn í verðlagið og áttu hlut í þeim óstöðugleika sem var hér. Ég tel líka að það eigi að minnsta kosti að vera undirmarkmið Seðlabankans að stuðla að fullri atvinnu í landinu og hagkvæmri nýtingu framleiðsluþáttanna. Ég á ekki í neinum erfiðleikum með að fjármálastöðugleikamarkmiðið sé styrkt með þeim hætti sem þarna er gert en ég vil spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra: Hvað með ábyrgð á fjármálastöðugleika að öðru leyti?

Ég veit vel að Seðlabankinn lítur svo á að hann sé fullfær um og einfær um að tryggja fjármálastöðugleika. Ég mundi giska á að ef hann væri spurður og fengi einn að ráða mundi hann segja: Fínt, setja það bara inn í lögin og málið afgreitt, Seðlabankinn sér um þetta mál. Ég er ekki sammála því. Ég held að reynslan hafi kennt okkur að það verður ekki þannig ef á bjátar. Ef á bjátar munu stjórnvöld, ríkisstjórn og Alþingi, aldrei geta keypt sér neina fjarvistarsönnun því að það hlýtur að lokum að liggja yfir ábyrgðinni. Það er þannig. Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra, þótt ég viti vel að þau mál eru í vinnslu: Hver er afstaða hæstv. ráðherra og nýrrar ríkisstjórnar til þeirrar vinnu sem stendur yfir varðandi það að reyna að ljúka gegnumferðinni á löggjöf um fjármálamarkaðinn og þar með talið hver eru viðhorf hæstv. ráðherra til þess að hér verði sett rammalöggjöf eða regnhlífarlöggjöf um fjármálastöðugleika og í þeirri löggjöf verði kveðið á um stofnun fjármálastöðugleikaráðs? Það er hluti tillagna sem eftir mikið nefndarstarf og mikla vinnu, og nokkuð kostnaðarsama þar sem alldýrir erlendir sérfræðingar voru meðal annars fengnir til liðs, er ein af tillögunum. Nefndir munu eiga að skila núna á vordögum eða í sumarbyrjun, einar tvær ef ekki þrjár sem tengjast þessu. Ein var sett af stað af fjármálaráðuneytinu og lýtur akkúrat að því að leggja grunn að löggjöf um fjármálastöðugleika. Önnur af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu sem fór með málefni fjármálamarkaðarins um ýmis lagaákvæði á sviði fjármálamarkaðar, þar með talið hvernig haga skuli slita- eða skilameðferð fjármálastofnana sem komast í þá stöðu og spurningin um að þá sé hægt við slíka skila- eða slitameðferð að aðgreina í skilunum eða slitunum viðskiptabankaþætti og fjárfestingarbankaþætti og fleira mætti nefna í þeim dúr.

Ég tel mjög mikilvægt að þessu starfi verði haldið áfram enda væri það synd og sóun ef þeirri miklu vinnu og þeim miklu fjármunum sem hefur verið kostað til til að undirbyggja að við getum, má segja, lokið því verkefni að endurmóta fjármálalöggjöfina og fjármálastöðugleikaumhverfið þannig að til frambúðar horfi og við treystum því sæmilega að hamfarir af því tagi sem urðu hér 2008 endurtaki sig ekki. Þess vegna fýsir mig að heyra aðeins frá hæstv. ráðherra í tengslum við umræðuna hver hans viðhorf í þessum efnum eru og hvar málin eru stödd og hvort hæstv. ríkisstjórn hyggist ekki halda vinnunni ótrauð áfram, af því að ég er eindregið þeirrar skoðunar að þess sé þörf.

Það er ekki í neinni mótsögn við miðlægt hlutverk Seðlabankans þó að pólitísk ábyrgð á fjármálastöðugleika sé skilgreind og skýrð í lögum og hún sé algerlega klár. Að mínu mati hefur reynslan kennt okkur að þetta þarf að vera algerlega kristaltært. Það má enginn vafi leika á því hvar ábyrgðin liggur og hvert þræðirnir liggja og sérstaklega ef upp koma einhverjar varhugaverðar aðstæður. Heildaryfirsýnin verður að vera til staðar. Það er ekki hægt að byggja eftirlit á þessu efni bara á einingaeftirliti. Það er meðal annars einn af lærdómunum. Það er ekki nóg að fylgjast með því hvort hver og ein stofnun teljist standa sæmilega miðað við að kerfið í heild sinni standi af því að áhættan getur safnast upp. Kerfislæg áhætta getur safnast upp og orðið stórfelld þó að svo líti út sem flestar einingarnar standi sæmilega, hver og ein út af fyrir sig. Þar af leiðandi verða bæði Fjármálaeftirlitið, einingaeftirlitið, og síðan sá aðili sem ber ábyrgð á kerfislægri áhættu, á kerfinu í heild, að hafa tól og tæki til að fylgjast með, að hafa upplýsingar, meta áhættuna og svo verður stjórnskipulag málaflokksins að vera algerlega klárt ef á það reynir. Ég held að það sé augljóst mál. Það er eðlilegast að sá ráðherra í ríkisstjórn sem fer með ríkisfjármál, og ég tala nú ekki um ef það eru bæði ríkisfjármál og efnahagsmál, sé formaður í slíku fjármálastöðugleikaráði. Þar geta að sjálfsögðu starfað með honum seðlabankastjóri, forstjóri Fjármálaeftirlits og reyndar held ég að það ættu að lágmarki að vera tveir ráðherrar úr ríkisstjórn í slíku fjármálastöðugleikaráði hverju sinni, jafnvel þótt ríkisfjármál og efnahagsmál séu á einni hendi innan Stjórnarráðsins.

Þetta skiptir líka máli í tengslum við undirbúning undir og aðgerðir sem tengjast næstu skrefum í sambandi við afnám fjármagnshaftanna. Það má að mínu mati ekki bíða þangað til allt er um garð gengið og fara þá að huga að því hvernig við ætlum að hafa lagaumgjörðina til lengri framtíðar litið. Það er því alveg hárrétt sem kemur fram hér og má ekki seinna vera. Það þarf auðvitað að grípa til þessara ráðstafana til að styrkja stöðu Seðlabankans í þessu ferli eins og er lagt til hér enn á ný, en er búið að gera það tvisvar áður án þess að það hafi náð afgreiðslu á Alþingi. Nú er velviljuð og jákvæð stjórnarandstaða mætt á þingið og hún mun stuðla að því að tryggja framgang málsins að öllu leyti sem það er til bóta og jákvætt. Ég hef engar „skrúbblur“ yfir því að þarna sé farið offari í rétti Seðlabankans til að sækja upplýsingar. Það voru aldrei efni til að hafa af því þær áhyggjur sem sumir höfðu hér í salnum.

Ég fagna sinnaskiptunum og bind vonir við að þetta mál fái gott brautargengi. Að uppistöðu til er það tvímælalaust til bóta og að sjálfsögðu í anda þess að menn ætli áfram að vinna þverpólitískt og vel saman að þessum gríðarlega mikilvæga málaflokki og öllu sem honum tengist, bæði í bráð og lengd.