142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[12:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður flutti ágæta ræðu og nefndi meðal annars kerfislæga áhættu. Hann nefndi hana þó ekki með nafni, það sem um er að ræða er hringferli fjár í hlutafélögum sem ég hef margoft bent á, þ.e. að hlutafélög eiga hvert í öðru og geta myndað heila keðju sem bítur í skottið á sjálfri sér og alltaf eykst eigið fé viðkomandi félaga án þess að nokkur innstæða sé fyrir því. Íslensk fyrirtæki voru í árslok 2007 komin með eigið fé upp á 7 þús. milljarða samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra. Það var sem sagt fimmföld þjóðarframleiðsla. Upphæðin datt niður í 50 milljarða í árslok 2008 og fór svo í mínus 1.400 milljarða í árslok 2009. Og maður spyr sig: Hvað varð um alla þessa peninga? Þeir voru aldrei til. Þetta er kerfislægur galli við hlutafélagaformið sjálft. Ég hef margoft nefnt það og flutt um það frumvarp en það hefur ekki náð fram enda erfitt fyrir Ísland eitt að nota það því að þetta er um allan heim.

Það er kannski best að sjá að SPRON átti í Existu og Kaupþingi og meginuppistaða eigin fjár SPRON voru þessi tvö hlutabréf, í Kaupþingi og Existu. Exista og Kaupþing voru hins vegar stórir stofnfjáreigendur í SPRON og heil keðja í kringum allt saman. Það var engin innstæða í þessu öllu saman. Ég hef ekki tíma til að fara nánar út í þetta en held að þetta hafi verið meginástæðan fyrir hruninu, þessi mikla notkun á að fyrirtæki og hlutafélög áttu hvert í öðru. Svo áttu náttúrlega Exista og Kaupþing 20% hvort í öðru þegar ballið stóð sem hæst. Þegar þetta byrjar að hrynja hrynur það allt og þetta er sú samanlagða kerfislæga áhætta sem er í dæminu og það er ekki búið að laga þetta.