142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[12:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er margt áhugavert í því sem hv. þingmaður nefnir. Það er reyndar búið að laga vissa hluti í þessum efnum eins og það að taka fyrir lánveitingar banka til eigenda sinna sem var hluti af ógæfunni í hruninu, þ.e. að menn lánuðu sjálfum sér alveg út og suður. Það er hárrétt að ein mesta hættan í hagkerfi er bólumyndun þar sem hagkerfið blæs upp og efnahagsreikningar fyrirtækja eru blásnir út á grundvelli sýndarverðmæta sem reynast froða. Það getur gerst með ýmsum hætti og ein aðferðin er sú sem hv. þingmaður nefndi, þetta hringferli í hlutafélögum. Krosseignatengslin eru sérstaklega varhugaverð í þessum efnum, þ.e. þegar menn eiga hver í öðrum, og það verður til þess að þenja út efnahagsreikningana og engin raunveruleg verðmæti standa á bak við.

En það getur líka gerst með ýmsum öðrum hætti, bólu á fasteignamarkaði þegar verð er komið langt upp fyrir raunverð og í viðskiptum, t.d. þegar menn kaupa fyrirtæki af sjálfum sér eða tengdum aðilum og skrúfa upp verðið í hverjum einustu viðskiptum. Ætli frægasta dæmið sé ekki kaupin á danska flugfélaginu Sterling sem menn keyptu og seldu og keyptu aftur, tengdir eða skyldir aðilar, og það hækkaði alltaf gríðarlega í verði í hverjum viðskiptum. Það reyndist svo nokkurn veginn gjaldþrota þegar upp var staðið. Hver ný sala á hærra verði þýddi að menn færðu þessa eign upp í bókunum hjá sér. Þetta er stórkostleg hætta. Það er alveg rétt, þetta er hluti af kerfislægri áhættu. Hér erum við að vísu að tala meira um fjármálakerfið þröngt og ég tel að sú reglusetning sem hér verður heimiluð um að aðgreina innlenda og erlenda áhættuþætti í lausafjárreglunum og varðandi langtímafjármögnun sé mjög til bóta. Það leysir þó ekki allan vandann, ég get verið sammála hv. þingmanni um það.