142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[12:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Að einhverju leyti er þetta rétt hjá hv. þingmanni en alls ekki að öllu leyti. Það sem stendur eftir í dag og hefur ekki verið samþykkt — ég hef flutt um það frumvarp — er að lánveitingar fyrirtækja til starfsmanna séu takmarkaðar við 1 millj. kr. eða eitthvað slíkt. Nú er það ótakmarkað. Ég gæti til dæmis farið út í eitthvert hlutafélag og ráðið mig sem sendil fyrir hádegi, þá væri ég orðinn starfsmaður, það lánar mér 1 milljarð kr. til kaupa á hlutabréfum í fyrirtækinu sjálfu. Það er heimilt að kröfu ESA og hv. þingmaður stóð með mér að því að samþykkja þau ósköp á Alþingi. Ég er búinn að biðjast afsökunar á því en hv. þingmaður ekki.

Þá mundi eigið fé viðkomandi hlutafélags aukast um milljarð ef ég gerðist starfsmaður þarna sem sendill fyrir hádegi, keypti hlutabréf fyrir milljarð, fengi lán til þess hjá fyrirtækinu, og þá mundi eigið fé fyrirtækisins vaxa um milljarð vegna þess að lánið telst sem eign en hlutabréf ekki sem skuld. Þetta er einfaldasta dæmið. Eftir hádegið, klukkan fjögur, er ég rekinn af því að ég náði ekki ákveðinni sendingu. Þetta er svo einfalt. Ég þarf ekki að starfa þarna nema nokkra klukkutíma. Þetta var gert. Bankarnir gerðu þetta, ég meina ekki með sendla en þeir lánuðu starfsmönnunum í stórum stíl, 40–50 milljarða, Kaupþing og hinir bankarnir, á tímabili 2006 þegar litla kreppan kom. Þá lánuðu þeir starfsmönnunum til þess að auka eigið fé sitt, ekki fyrir starfsmennina heldur fyrir sjálfa sig. Það hefur eflaust verið erfitt fyrir starfsmennina að hafna slíku. Viltu ekki fá lán til að kaupa hlutabréf, hefurðu ekki trú á fyrirtækinu, hvað er þetta? spyrja stjórnendur.

Það er ekki búið að laga þetta. Að kröfu ESA er þetta enn þá ótakmarkað. Ég held að það sé ýmislegt sem við þurfum að gera og laga hið snarasta til að koma í veg fyrir að menn geti búið til eigið fé eins og þeim sýnist.