142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[12:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér þó að ég ætli ekki að lengja umræðuna mikið að taka upp þráðinn þar sem hv. þingmaður, sem hér talaði áður, endaði, þ.e. varðandi framvirka samninga. Þeir eru óskaplega mikilvægir. Þeir eru svo mikilvægir að þeir geta létt bændum, sjómönnum og öðrum róðurinn. Sjómaður gæti til dæmis selt fiskinn sinn framvirkt, það sem hann ætlar að veiða í haust getur hann selt núna á ákveðnu verði sem tryggir honum ákveðið verð. Þetta er gildi framvirkra samninga. En hvað varðar Buffet sem hv. þingmaður nefndi, það er misnotkun á þessu fyrirbæri, þ.e. þegar menn selja kannski sömu olíutunnuna 10 þúsund sinnum. Það er misnotkun. Og það er tiltölulega auðvelt að koma í veg fyrir það með því að segja bara að ekki megi selja sömu vöruna nema einu sinni. Sjómaðurinn megi ekki selja fiskinn sinn nema einu sinni, mjög einfalt. Þá geta framvirkir samningar virkilega orðið það sem þeir eiga að vera, að minnka áhættu í atvinnulífinu.

En við erum að tala um frumvarp um Seðlabanka sem snýr að gjaldeyrishöftunum og vörnum Seðlabankans til að vinna betur gegn alls konar misferli með gjaldeyrishöft. Gjaldeyrishöftin skaða mjög mikið, þau eru mjög skaðleg og kannski skaðlegri en flestir gera sér grein fyrir, jafnvel í því veika formi sem þau eru í í dag. Skaðinn felst í því að erlendir aðilar eru ekki tilbúnir til að fjárfesta í innlendu atvinnulífi sem mundi skapa atvinnu. Þau koma líka í veg fyrir sparnað innlendra og erlendra aðila innan lands vegna þess að menn geta ekki flutt peningana út yfirleitt og eru bundnir með þá hér á landi ef þetta verður svona til langframa. Það minnkar langtímalán og það minnkar fjárfestingu sem mundi skapa atvinnu. Gjaldeyrishöftin koma í veg fyrir að hér skapist atvinna eða hindra það.

En það versta er þó með siðrofið sem felst í því að allir eða mjög margir, ekki allir, reyna að finna göt í gjaldeyrishöftunum og svindla á þeim. Ég nefndi nokkur dæmi þegar þessi gjaldeyrishöft voru tekin upp þar sem menn gætu leikið sér að því að svindla á kerfinu. Ég þekkti einu sinni þá tíð, ég er orðinn það gamall, þegar hér voru gjaldeyrishöft og allt var löðrandi í einhverju sem átti ekki að vera. Það var varla svo brotist inn á heimili á Íslandi eða í Reykjavík að ekki væri stolið gjaldeyri sem fólk átti eða hafði hamstrað. Forsenda þess að aflétta gjaldeyrishöftunum er að laga snjóhengjuna og þetta er hluti af því.

Ég ætla ekki að fara langt ofan í þetta, ég ætla að fara aðallega í 4. gr. en þar er þessi gífurlega heimild. Þó að þetta sé mjög mikilvægt, ég átta mig á því, þá þurfum við að gæta okkar dálítið á því að veita ekki einstökum aðilum of miklar heimildir. En hér stendur, með leyfi forseta:

„Skylt er, að viðlögðum viðurlögum skv. 37. gr., að láta Seðlabankanum í té allar upplýsingar og gögn sem bankinn telur nauðsynleg. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.“

Það er bara allt landið og miðin undir, læknaskýrslur o.s.frv. Það gæti verið að Seðlabankinn vilji komast að því hvort einhver ákveðinn aðili, til dæmis ég, sé eitthvað geðveikur og ætlaði að fara að kíkja í læknaskýrslur til að athuga það. Það eru engin takmörk þarna, engin. Þetta var rætt hérna í sambandi við gjaldeyrishöftin sömuleiðis, en ég tel að þetta ættu að vera fjárhagslegar upplýsingar. Það mætti setja eitt orð þarna fyrir framan, þ.e. „fjárhagslegar“ upplýsingar, og það verður væntanlega gert í nefndinni þegar málið verður rætt þar, eða að lagaákvæði um þagnarskyldu takmarkað, ég mundi segja um „bankaleynd“. Þá er komið á hreint að þrátt fyrir bankaleynd eigi að veita Seðlabankanum upplýsingar. Þá snýr þetta bara að bönkum. Þetta er eitthvað sem nefndin þarf að skoða. Ég ætla ekki að fara nánar út í það en hættulegt er að veita mönnum upplýsingar. Mér skilst að fólk í Seðlabankanum sé að skoða kreditkort eða eyðslu úti í heimi, í hvað menn nota kreditkortið sitt. Það getur verið kannski áhugavert hjá sumum.

Síðan vil ég gera smáathugasemd við umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins um frumvarpið og þar stendur í lokin, með leyfi forseta:

„Seðlabanki Íslands er sjálfstæð stofnun og er ekki rekinn með framlögum frá ríkissjóði. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður því ekki séð að það hafi fjárhagsleg áhrif fyrir ríkissjóð.“

Herra forseti. Það vantar pínulítið inn í þetta. Seðlabankinn er rekinn með ríkisábyrgð, galopinni. Það kom í ljós í hruninu að ríkið þurfti að borga hvort það voru 100 eða 200 milljarða til Seðlabankans. Ég held að við þurfum að skoða dálítið vel þá ríkisábyrgð sem Seðlabankinn er að valsa í án þess að fá til þess heimild í fjárlögum. Mér þætti eðlilegt, af því að ég er svo upptekinn af ríkisfjármálum og sérstaklega ríkisábyrgðum, að til að sýna raunverulega stöðu ríkissjóðs þurfi Seðlabankinn að vinna samkvæmt fjárlögum og fá til þess heimild að taka lán og annað slíkt og skuldbinda ríkissjóð til framtíðar.

Taka þarf á mörgu öðru, herra forseti, til dæmis Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. B-deildin er með 400 milljarða í skuldbindingu. Það hefur ekki verið fært í fjárlög. Þetta er galopið, stendur bara þarna, svífur í loftinu. Það er eins og ríkissjóður og hæstv. fjármálaráðherra ætli ekki að standa við kjarasamninga. Það er búið að vera í mörg herrans ár, í áratugi, gífurleg skuldbinding á B-deild LSR upp á 400 milljarða. Svo vex skuldbindingin í A-deildinni sem var tekin upp og átti að standa undir sjálfri sér, er komin upp í 60 milljarða núna og menn gera ekkert í því, ekki neitt. Svo við tölum ekki um Íbúðalánasjóð og þau ósköp. Það vantar því alveg heilmikið í ríkisfjármálin og þetta er eitt atriðið. Það skiptir virkilega máli fyrir ríkissjóð hvað gerist með Seðlabankann þannig að þessi fullyrðing í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins er að mínu mati ekki rétt.