142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

Seðlabanki Íslands.

20. mál
[12:19]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þm. Pétur Blöndal nefndi áðan um að ríkið væri ábyrgt fyrir Seðlabankanum. En að ríkið hafi greitt þessa 200 milljarða efast ég um. Var það ekki svo að Seðlabankinn þurfti bara að búa til þessa 200 milljarða? Er það ekki rétt að Seðlabankinn býr til peninga? Það þýðir að ríkið, skattgreiðendur þurftu ekki að borga fyrir þetta beint í gegnum skattana sína heldur þurftu þeir sem eiga krónur að borga eins konar verðbólguskatt. Verðgildi krónunnar rýrnaði, sem er þá fjárhagslegur skaði fyrir þá sem eiga krónur. Það voru þeir sem urðu fyrir þessum skaða og borguðu þetta gjald, við getum kallað það verðbólguskatt.