142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

stjórn fiskveiða.

3. mál
[12:27]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég hef fengið að sitja í atvinnuveganefnd. Við höfum fundað strangt, setið langa og stranga fundi, sem er eðlilegt og gaman að taka þátt í því. Það er mjög fræðandi að fá alla þessa gesti, þessa sérfræðinga til að gefa okkur álit. Ég geri mér vel grein fyrir því, og þannig á það á að vera á Alþingi, að þegar mál eru brýn og leysa þarf að úr þeim fljótt að við þurfum að vinna mikið og lengi. Það er ekkert öðruvísi hér en í öðrum vinnum sem maður hefur stundað og ég tek því fagnandi.

Hins vegar finnst mér vont, leggjandi mikinn metnað í þessa nefnd, ég er mjög áhugasöm, að vera í fyrstu tveimur nefndarálitum fjarverandi við afgreiðslu máls. Það helgast af því að ég þurfti frá að hverfa af fundi. Hann var eins og gefur að skilja að vissu leyti boðaður frekar seint, en hann var á milli fimm og sjö að mig minnir, á tíma þegar ungt fjölskyldufólk þarf að sækja börn. Mínir góðu samnefndarmenn eru flestir eldri en ég, ágætis miðaldra karlmenn og miðaldra konur. Ég bið þau og minn ágæta formann að taka tillit til þess að ef við viljum halda fjölbreytni hér á Alþingi eins og um 8%, kjósendur Bjartrar framtíðar, vilja og eitthvað um 5%, þeir sem kusu Pírata, — ég geri ráð fyrir því að fólk kjósi hingað inn margbreytilegt fólk — þá pössum við upp á það að mér og öðru fjölskyldufólki sé gert kleift að sinna þeim skyldum sem við tókum sæti hér á Alþingi til að sinna.

Ég veit að þessu verður vel tekið en vildi bara koma þessu á framfæri. Takk.