142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

staða geðheilbrigðismála barna og unglinga á Norðausturlandi.

[14:01]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Herra forseti. Mig langaði að ræða um stöðu geðheilbrigðismála barna og unglinga á Norður- og Austurlandi. Staðan er þannig að engin barna- og unglingageðlæknir hefur verið starfandi í þessum landsfjórðungi frá því í byrjun apríl á þessu ári. Þessi þjónusta var veitt á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og þjónaði landsfjórðungnum.

Ég sendi hæstv. heilbrigðisráðherra tölvupóst vegna þessa máls um leið og hann tók við embætti og fékk svar að bragði. Mig langar að nota tækifærið og þakka kærlega fyrir skjót viðbrögð hæstv. ráðherra. Ég mat það mikils að hann skyldi taka sér tíma í að svara mér og einnig að sjá að hann var vel meðvitaður um stöðuna og var með málið á sínu borði. Ég þarf svo sem ekki að ítreka alvarleika málsins fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra. Hún er öllum kunn.

Það sem mig langar til að spyrjast fyrir um er 20 millj. kr. viðbótarfjárveiting á fjárlögum 2013 sem var sérstaklega ætluð til þess að efla geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga á FSA. Ég mundi vilja vita hvernig þessir peningar nýtast skjólstæðingum, í ljósi þess að enginn barnageðlæknir er á launum eins og staðan er í dag, hvort þetta nýtist kannski sem ferðastyrkur til að komast suður vegna bráðaþjónustu, eða hvort aukið hafi verið við sálfræðiþjónustu og hún gerð aðgengilegri og ódýrari.

Svo var ég líka að velta fyrir mér hvort það væri einhver fjarþjónusta í boði, þ.e. hvort verið væri að notast við fjarfundabúnað til að eiga samskipti við lækna á höfuðborgarsvæðinu á meðan þetta ófremdarástand ríkir. Það kemur auðvitað ekki í staðinn fyrir hefðbundinn tíma, en gæti verið ódýr og góð lausn.

Ég vona að það sé lausn í farvatninu og þetta leysist. Ég treysti hæstv. heilbrigðisráðherra til að taka á málinu, ég þekki hann ekki af öðru en dugnaði. Við mundum aldrei láta líðast að handleggsbrotið barn fengi ekki aðhlynningu í heimabyggð. Við getum ekki látið líðast að börnum sem þurfa á þjónustu geðlæknis að halda sé gert erfitt um vik.