142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

staða geðheilbrigðismála barna og unglinga á Norðausturlandi.

[14:08]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál til sérstakar umræðu og ráðherra fyrir þau svör sem hann hefur gefið. Hér er verið að ræða stórt og mikið mál sem snýst að hluta til um fjárveitingar og niðurskurðinn undanfarin ár, því miður, sem við höfum þurft að fara í. En það ánægjulega gerðist við fjárlagagerð þessa árs hjá síðustu ríkisstjórn að 20 millj. kr. var veitt aukalega til geðheilbrigðismála barna og unglinga á Norðausturlandi. Þetta snýst svolítið um það. Ég má til með, virðulegi forseti, að minna á að töluvert var líka aukið í tækjakaup.

Í tengslum við það mál sem hér er rætt og hæstv. ráðherra sem nú er kominn í ráðherrastólinn fer maður að hugsa svolítið um þau hlutverkaskipti sem hafa orðið. Nú er hann ekki lengur sem hrópandi sem gagnrýnir niðurskurð og fyrri stjórnvöld eins og á stórum fundi sem við getum minnt á, á Húsavík forðum. En hlutverkin hafa snúist við, nú er hann kominn í stól heilbrigðisráðherra. Nú hefur hann tækifæri til að uppfylla það sem hann krafðist af okkur og við gátum ekki orðið við að öllu leyti á sínum tíma. Nú er það þannig.

Ég vil hins vegar ekki gera þá kröfu til hæstv. ráðherra að hann svari því hér og nú hvað hann mun koma með mikið fé í viðbót til þessa málaflokks fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Ég vil gefa honum tíma fram á haustið. Ég bíð spenntur eftir 10. september þegar við komum hér saman og fáum fjárlög. Þá munum við meta hvernig hefur tekist og hvort hrópandinn hefur breyst yfir í veitanda og komi færandi hendi með það sem vantar. (Forseti hringir.) Við vitum að það sem vantar er meira fé til að geta ráðið starfsfólk og borgað betur því hæfa starfsfólki sem við þurfum að hafa á þessu svæði.