142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

staða geðheilbrigðismála barna og unglinga á Norðausturlandi.

[14:11]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir umræðuna sem er afar þörf. Faraldsfræðilegar rannsóknir, þar með talið íslenskar, benda til þess að um 20% barna eigi við geðheilsuvanda að stríða og 7–10% barna þurfi á geðrænni meðferð að halda. Það eru 10–20% barna sem þurfa á slíkri hjálp að halda vegna geðraskana.

Í starfi mínu sem ég sinnti áður en ég kom hingað á þing sem náms- og starfsráðgjafi sinnti ég oft málefnum barna með margs konar geðraskanir og veit því nokkuð um þá glímu sem bæði nemendur og foreldrar standa frammi fyrir. Fjölskyldur takast á við fjölmargar áskoranir á hverjum degi en líka mikla erfiðleika og vanmátt gagnvart kerfinu. Foreldrar eru oft mikið frá vinnu vegna veikinda barna sinna.

Þegar kemur að því að leita aðstoðar, til dæmis í Norðausturkjördæmi, er erfitt um vik eins og hér hefur verið rakið. Undanfarin ár hefur verið vakning í að efla bæði grunn- og sérfræðiþjónustu við börn og unglinga með geðrænan vanda. Það þarf að vera framhald á þeirri vinnu því að hún heyrir til mikilvægra framfara í meðferðar- og forvarnavinnu á sviði barna og unglinga. Tilvísunum hefur fjölgað, biðlistar lengst og skortur er á meðferðarúrræðum öðrum en lyfjameðferð og það er áhyggjuefni.

Ég tel að öll skólastig sinni þessum nemendum eftir bestu getu en álag er mikið, og afar mikið eins og staðan er í dag, og skólakerfið er alls ekki í stakk búið til að sinna börnum með geðraskanir svo vel sé. Auka þarf stoðþjónustuna enn frekar í grunn- og framhaldsskólum og auka þar með náms- og starfsráðgjöf og aðgengi að sálfræðingum og skólahjúkrunarfræðingum í heilsugæslunni. Það er óásættanlegt að fjölskyldur þurfi að bíða jafnvel árum saman eftir viðeigandi aðstoð því að samkvæmt heilbrigðisáætlunum og lögum hér á landi er gert ráð fyrir að geðheilbrigðisþjónusta verði stór þáttur í starfsemi heilsugæslustöðva.

Að flytja börn og fjölskyldur suður er ekki lausn að mínu mati, enda viðvarandi biðlisti á barna- og unglingageðdeildinni og einungis hægt að aðstoða þau börn sem eru í mjög bráðum vanda. Óleyst vandamál vaxa með miklum þunga fram á fullorðinsár.

Í því sambandi langar mig að varpa nokkrum spurningum til hæstv. heilbrigðisráðherra:

Veit hann hversu mörg börn eru nú á biðlista hjá BUGL eða Greiningarmiðstöðinni og á Akureyri?

Veit hæstv. ráðherra hversu margir stunda nám í barna- (Forseti hringir.) og unglingageðlækningum?

Væri hægt að veita einhvers konar ívilnanir til handa slíkum sérfræðingum til að þjónusta landsbyggðina?