142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

staða geðheilbrigðismála barna og unglinga á Norðausturlandi.

[14:13]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir að hefja umræðu um þetta mikilvæga mál í dag og ráðherra fyrir svörin. Þetta snýst ekki fyrst og fremst um niðurskurðinn heldur um ákveðinn vanda sem upp er kominn og þarf að finna lausn á.

Undanfarin ár hefur sérhæfð og þverfagleg þjónusta verið byggð upp á Akureyri fyrir börn og unglinga sem glíma við þroskafrávik eða geðræna erfiðleika. Þessi þjónusta hefur verið skilvirk þó að bent hafi verið á að frekar þyrfti að bæta í en draga úr. Barna- og unglingageðdeild hefur sinnt þjónustu við börn og unglinga sem búsettir eru á svæðinu frá Hrútafjarðarbotni til Djúpavogshrepps. Það er ekki lítið svæði.

Almennt er þjónusta við börn með geðrænan vanda af allt of skornum skammti á landinu. Oftast er löng bið eftir henni. Eins og staðan er nú er um mikla afturför í þjónustu að ræða og þjónustan verður miklum mun óaðgengilegri fyrir íbúa á stóru landsvæði. Margir hafa vakið máls á þessu í fjölmiðlum eða annars staðar; foreldrar á svæðinu, skólaskrifstofur, starfsmenn framhaldsskóla og grunnskóla, sálfræðingar á Norður- og Austurlandi og Barnageðlæknafélag Íslands, enda varðar þetta starf alla þessa aðila.

Málið snýst um þjónustu, ráðgjöf og forvarnir ekki síst og hefur áhrif á aðgang að nauðsynlegri þjónustu og ráðgjöf til einstaklinga, fjölskyldna, skóla, barnaverndaryfirvalda og annarra aðila sem vinna með börnum og unglingum. En fyrst og fremst snýst það um lífsgæði barna og fjölskyldna.

Ég hvet ráðherra heilbrigðismála því til að bregðast við þessum vanda og leita allra mögulegra lausna. Ég veit að allir þingmenn í Norðausturkjördæmi (Forseti hringir.) a.m.k. eru tilbúnir í þá lausnaleit.