142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

staða geðheilbrigðismála barna og unglinga á Norðausturlandi.

[14:20]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Það er ljóst að staða geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi er slæm, geðheilbrigðisþjónusta er ónóg og hefur verið það allt of lengi. Staðan er sérstaklega vond úti á landi. Ég kallaði eftir upplýsingum frá velferðarráðuneytinu. Þar er reyndar bara um að ræða tölur frá 2010, það er það nýjasta. Ég vek athygli á því að á Vestfjörðum og á Vesturlandi er enginn starfandi geðlæknir. Þannig að staðan er ekki bara slæm í Norðausturkjördæmi þó að hún sé vissulega mjög slæm þar.

Þetta er okkur of dýrkeypt, ekki bara vegna hins sálræna og félagslega tjóns sem fólk stendur frammi fyrir og fær ekki hjálp við, það er líka of dýru verði keypt fyrir ríkið og skattgreiðendur.

Einn þriðji allra öryrkja á Íslandi er það vegna geðrænna vandamála, geðrænna sjúkdóma. Það er allt of dýrt í peningum talið að grípa seint og illa inn í geðræn veikindi fólks því að þegar þar er komið sögu erum við að eyða of miklu í dýra þjónustu, bráðainnlagnir á geðdeild og því um líkt. Það er miklu ódýrara að vera forsjál og grípa fólk fyrr. Þannig eru líka mun meiri líkur á að fólk nái að lifa með sjúkdómi sínum og skili samfélaginu til baka í formi vinnu sinnar og þátttöku.

Sem fyrrverandi formaður Geðhjálpar þekki ég málið vel og leyfi mér að fullyrða að ef stjórnvöld hugsa aðeins fram í tímann og vanda sig í byggingu forvarna og leggja rausnarlega til fyrsta stigs þjónustu, sitjum við uppi með aðra mynd en þá sem við horfum upp á núna. Ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til að skoða mönnun og nýliðun í læknastétt. Þar er staðan hvað verst í geðlækningum. Hæstv. ráðherra þarf sérstaklega að gæta þess að við fáum til baka þá lækna sem við erum að mennta.