142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

staða geðheilbrigðismála barna og unglinga á Norðausturlandi.

[14:22]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir umræðuna. Ég vil benda á að hér eru eingöngu til umræðu geðheilbrigðismál barna og unglinga á Norður- og Austurlandi. Það væri vert og mikilvægt að mínu mati að ræða geðheilbrigðismál almennt.

Ástand þessa málaflokks á Norðurlandi og Austurlandi hefur verið með ágætum. Honum hefur verið sinnt af miklum sóma þannig að eftir hefur verið tekið, sérstaklega á suðvesturhorninu, og margir litið þá starfsemi öfundaraugum. Upp á síðkastið hafa áhyggjur manna aukist og það af góðri ástæðu. Ég fagna því sérstaklega að hæstv. heilbrigðisráðherra ætli að taka á málinu. Hæg eru heimatökin.

Ég vil benda á að ástæðan fyrir því að vandamálið er til staðar er skipulagsmál innan Sjúkrahússins á Akureyri. Ekki hefur verið gengið til samninga við eina starfandi barna- og unglingageðlækninn á svæðinu. Það er verkefni sem verður að leysa.

Það er okkar þingmanna að tryggja að þessi starfsemi sé til staðar. Ég hef oft heyrt hér í þingsal að okkar eina hlutverk sé að tryggja fjármuni. Ég held að hlutverk okkar sé stærra og meira en það. Þegar eitthvað bjátar á í starfsemi eigum við að ræða það á Alþingi og grípa inn í. En ég ítreka að ég vil þakka þessa umræðu.

Hv. fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, Guðmundur Bjarnason, veitti heimild fyrir því að barna- og unglingageðlæknir yrði staðsettur á Akureyri. Framsóknarflokkurinn hefur ítrekað beitt sér fyrir þessum málaflokki. Það munum við gera áfram.