142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

stjórn fiskveiða o.fl.

4. mál
[14:32]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sem snýr fyrst og fremst að stærðarmörkum krókaaflamarksbáta, strandveiðum, gjaldtökuheimildum og viðurlögum.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til verulegar breytingar á 1. gr. frumvarpsins. Það gerir hann í skugga þeirrar staðreyndar að frumvarpsgreinin er afurð málamiðlana á milli hóps sem barðist fyrir breytingum og hóps sem vildi standa vörð um óbreytta smábátaútgerð á Íslandi.

Á síðasta löggjafarþingi fjallaði nefndin um frumvarp sem hafði að geyma ákvæði um stærðarmörk krókaaflamarksbáta. Við það tilefni kom afstaða Landssambands smábátaeigenda skýrt í ljós, m.a. að aðalfundir aðildarfélaga sambandsins hefðu í október 2012 svarað því neitandi hvort breyta ætti stærðarmörkum krókaaflamarksbáta. Taldi sambandið ljóst að slík breyting mundi veikja krókaaflamarkskerfið. Á fundum nefndarinnar í vor ítrekaði sambandið framangreint sjónarmið. Þá kom einnig fram að sambandið teldi róttækar breytingar á stærðarmörkum geta falið í sér eðlisbreytingu á krókaaflamarkskerfinu, farið yrði úr smábátakerfi með áherslu á sjálfbærar og náttúruvænar veiðar yfir í útgerð í verksmiðjustíl.

Allt fram til gildistöku laga nr. 3/2002, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, var óheimilt að veita bátum sem væru 6 brúttótonn eða stærri leyfi til handfæra með dagatakmörkunum auk þess sem óheimilt var að stækka báta sem höfðu fengið slík leyfi. Ákvæðinu var næst breytt með lögum nr. 85/2002 þar sem 6 brúttótonna viðmiðinu var breytt í 15 brúttótonn. Hinn 28. apríl 2008 ritaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið bréf þar sem fram kom að skv. 5. mgr. 12. gr. og 8. mgr. 15. gr. laga um stjórn fiskveiða væri aðeins heimilt að færa krókaaflamark og krókaaflahlutdeild til báta sem væru undir 15 brúttótonnum að stærð en færi bátur yfir 15 brúttótonnin gæti hann haldið leyfi til veiða í krókaaflamarki en ekki flutt til sín aflaheimildir í krókaaflamarki. Í kjölfar bréfsins var einn bátur, sem er Bíldsey SH 65, stækkaður upp fyrir framangreind stærðarmörk. Allar götur síðan hefur þrýstingur á hækkun stærðarmarka krókaaflamarksbáta verið mikill.

Á fundum atvinnuveganefndar var ítrekað bent á að skipstjórnar-, vélstjóra- og stýrimannaréttindi fyrir smáskip miðist við 12 m skráningarlengd. Gera má ráð fyrir að stærri bátar muni í einhverjum tilvikum krefjast fleiri sjómanna með meiri réttindi.

Minni hlutinn telur að þar sem meiri hlutinn ákvað að leggja til svo róttækar breytingar á stærðarmörkum krókaaflamarksbáta hefði verið rétt að skapa eitthvert mótvægi til að tryggja að eðli kerfisins breyttist ekki um of. Þar vil ég t.d. nefna það sem hefur komið til tals að hámarkshlutdeild í krókaaflamarkskerfinu í dag yrði lækkuð til að draga úr hættu á samþjöppun aflaheimilda á stærri bátana og fækkun minni báta.

Að mati minni hlutans skapa tillögurnar verulega hættu á samþjöppun aflaheimilda í krókaaflamarkskerfinu og að forsendur krókaaflamarkskerfisins muni bresta. Smábátaútgerðin hefur verið skilgreind á alþjóðlegum grundvelli. Hún nýtur sérstöðu og ekki er heimilt að færa krókaaflamark upp í stóra kerfið, þ.e. aflamarkskerfið, heldur eingöngu öfugt. Þannig hefur tilvist þess verið tryggð. Í raun og veru hefur verið slegin eins konar skjaldborg um krókaaflamarkskerfið að uppfylltum forsendum sem miðast við að tryggja þessari grein útgerðar smábáta aflaheimildir og að því sé ekki raskað með því að stórútgerðin kaupi til sín úr því kerfi.

Að mati minni hlutans er veruleg hætta á að í framhaldinu aukist þrýstingurinn á opnun milli kerfa. Það eru auðvitað ákveðin rök sem er hægt að færa fram í þeim efnum. Mönnum í stóra kerfinu getur fundist að í hinu kerfinu ætli menn að njóta þess góða úr báðum kerfum en vera varðir í sínu kerfi, að þeir geti keypt úr stóra kerfinu en ekki öfugt. En að mati minni hlutans er veruleg hætta á að í framhaldinu aukist þrýstingurinn á opnun milli kerfanna og það tel ég vera mjög slæma þróun. Ég er talsmaður þess að við verjum krókaaflamarkskerfið því að það hefur skapað mikla atvinnu vítt og breitt um landið og það hefur verið mjög hagstætt fyrir minni sjávarbyggðarlög að byggja sig upp í smærri bátunum.

Í breytingartillögum meiri hlutans er að finna tillögu um svokallaðan Byggðastofnunarbyggðakvóta. Þá tillögu styð ég heils hugar. Hún er nær orðrétt sú sama og tillaga sem meiri hluti atvinnuveganefndar lagði fram á síðasta þingi en var ekki afgreidd og tel ég það mjög miður. Vandi þeirra byggðarlaga sem slíkum kvóta er ætlað að mæta er mjög alvarlegur. Þessi tillaga var ekki í upphaflega frumvarpinu sem lagt var fram en sem betur fer kemur hún nú fram við 2. umr. Ég vil undirstrika að betur hefði farið á því að þessi byggðakvóti hefði verið til ráðstöfunar hjá Byggðastofnun miklu fyrr og tillagan hefði verið samþykkt fyrir þingfrestun í vor eins og hún lá fyrir. Það er í raun og veru sorglegt að svo varð ekki.

Að lokum harma ég að í frumvarpinu er ekki að finna tillögu sem tryggir strandveiðum fasta hlutdeild í heimiluðum heildarafla. Slíka tillögu lagði meiri hluti atvinnuveganefndar til á síðasta löggjafarþingi og samþykkt hennar hefði tryggt grundvöll strandveiðikerfisins og eðlilega hlutdeild þess í auðlindinni. Svo varð því miður ekki.

Ég vil því mælast til þess að málið verði tekið aftur til atvinnuveganefndar milli 2. og 3. umr. og ég mun þá leggja fram tillögu um að því verði mætt að strandveiðarnar fái hlutdeild í aukningu þorskaflans sem er áætluð í ár. Nú er eingöngu verið að tala um að sama magn verði í strandveiðum og var áður, tæp 7 þús. tonn, en ekki að strandveiðipotturinn fái hlutdeild í þeirri aflaaukningu sem blasir við í ár. Ég tel það vera mikið réttlætismál að annaðhvort verði bætt í hann þeim tonnafjölda sem nemur ákveðnu hlutfalli af þeirri aukningu sem verður — þá erum við að tala um í þorskígildum, strandveiðarnar eru með ufsa og þorsk. Í fyrra frumvarpi sem ég nefndi áðan var talað um að strandveiðarnar færu í 3,6% hlutdeild af heildarafla sem þýddi að strandveiðarnar nytu góðs af aflaaukningu eins og aðrar greinar.

Ég tel þetta vera mikið réttlætismál og mun flytja breytingartillögu þar að lútandi og kalla málið inn í nefnd á milli 2. og 3.umr. Ég treysti á það og veit að í hv. atvinnuveganefnd hafi menn réttlæti gagnvart þessari grein útgerðar að leiðarljósi og hafi til hliðsjónar að hún fái sinn skerf af aukningunni. Ég held að strandveiðar séu búnar að sanna tilverurétt sinn og eigi að fá að lifa meðfram öðrum tegundum af veiðum. Þær hafa sýnt að þær eru góð viðbót og hafa hleypt miklu lífi í margar sjávarbyggðir og ýtt undir einstaklingsframtakið, sem ég veit að margir hér inni eru talsmenn fyrir, öflugt einstaklingsframtak. Og ef það er ekki í strandveiðunum sem einstaklingsframtakið birtist eins og það gerist best úti á landsbyggðinni þá veit ég ekki hvað það er.

Í þessu máli tala ég kannski fyrst og fremst um stærðarmörkin vegna þess að þau voru svo mikið í umræðunni í vor. Það hefur komið í ljós að menn hafa gengist inn á það í forustu Landssambands smábátaeigenda að stærðarmörkin verði stækkuð en Landssamband smábátaeigenda lagðist alfarið gegn því fyrir nokkrum mánuðum síðan þegar þessi mál voru til umfjöllunar og höfðu á bak við sig samþykktir félagsfunda vítt og breitt um landið. Ég held að ellefu félagsfundir af tólf hafi samþykkt að þeir vildu ekki að stærðarmörkin yrðu meiri en 15 metrar og 15 brúttótonn.

Ég tel að þar hafi komið mjög veigamikil rök því til stuðnings að menn yrðu að gera upp við sig hvort þeir vildu gera út í krókaaflamarkskerfinu og því sem fylgdi því að vera með smábátaútgerð og fengju ákveðna forgjöf í því og stuðning við að standa vörð um það kerfi gagnvart stóra kerfinu. Krókaaflamarkskerfið hefur verið að stækka og eflast og aflaheimildir innan þess að aukast. Stundum heyrir maður þau sjónarmið úr stóra kerfinu að þar þyki mönnum nóg um, (Gripið fram í.) en ég held að þessi kerfi eigi að vera áfram hlið við hlið, en þá megi menn ekki ógna því jafnvægi sem þar er á milli. Hættan er sú, eins og hefur komið fram hjá þeim sem hafa komið fyrir nefndina að eins og á undangengnum árum þegar breytingar hafa verið í þessum málum og menn hafa verið að sameina kerfi hefur smáútgerðin á ógnarskömmum tíma verið keypt upp af hinum stærri. Þeir sem vilja verja fjölbreytt útgerðarmynstur vilja ekki sjá slíka þróun. Þess vegna skil ég mætavel ótta félagsmanna innan Landssambands smábátaeigenda um að afleiðingin gæti orðið sú á stuttum tíma að menn keyptu upp minni útgerðir í krókaaflamarkskerfinu og kerfið yrði annað en lagt var upp með.

Ég vil undirstrika að ég er fylgjandi því að allur aðbúnaður, vinnuaðstaða, öryggissjónarmið og allt sem lýtur að öryggismálum sjófarenda sé haft í fyrirrúmi. Við Íslandsstrendur hafa smábátar verið gerðir út um margar aldir og það er ekkert nýtt. Menn hafa alltaf þurft að aðlaga sig aðstæðum, veðurfari og reynt að fara gætilega. Það breytist ekkert þó að menn séu á fullkomnum bátum með öflugu vélarafli og annað því um líkt. Menn þurfa alltaf að miða sjósókn við aðstæður og veðurfar og það breytist ekki.

Það er ekkert sem bannar það í dag að byggja báta af öllum stærðum og gerðum, en þá verða menn að gera upp við sig í hvaða kerfi þeir ætla að vera. Ég þekki það mætavel, alin upp úti á landi í sjávarbyggðarlagi þar sem voru margir vertíðarbátar þegar ég var ung, að menn voru stoltir þegar þeir voru komnir upp í 200 tonna vertíðarbáta úr kannski 30 tonna vertíðarbátum. Þeir fundu mikið öryggi í því og vinnuaðstaða og annað var breytt, og þessir bátar gátu auðvitað stundað sjóinn með allt öðrum hætti.

Síðan breyttist þetta allt — og það er nú vinsælt hjá mér og fleirum að kenna kvótakerfinu um margt, en það breyttist samt margt í kjölfarið. Sá floti vertíðarbáta sem voru í ágætisstærð til að sækja sjó í þessum sjávarbyggðum, er nærri horfinn. Hann er orðinn mjög lítill. Þessir hefðbundnu vertíðarbátar, sá floti sem er eins og maður þekkti hérna áður fyrr, eru kannski fyrst og fremst að koma nú á Vestfjarðamið frá Suðurnesjunum, t.d. Grindavík, og sækja þar sjó.

Ef menn vilja koma sér upp öflugum vertíðarbát sem getur róið í frekar vondum veðrum og eru öruggari og eru úti lengur en innan við sólarhring verða þeir líka að horfa til þess að þá falli þeir inn í aflamarkskerfið. Þetta eru mín sjónarmið í málinu. Ég mun alltaf standa vörð um að aðbúnaður sé sem bestur hjá fólki til lands og til sjávar. Andstaða mín við að þessir bátar fari upp í allt að 30 brúttótonn byggist á því að ég óttast að það kerfi sem er í dag byggt á smábátaútgerð muni ekki verða samt eftir það. Eftir einhver missiri eða ár muni verða þrýstingur á að menn fái að veiða með öðrum veiðarfærum en eru í dag, en í dag má einungis veiða í krókaaflamarkskerfinu á krókum. Þegar bátarnir verða stærri fari menn að gera kröfu til þess að fá að veiða með öðrum veiðarfærum og þannig verði munurinn á þessum kerfum ekki til staðar þegar fram í sækir og þrýstingur verði á að steypa þessu öllu í eitt mót. Það er það sem ég er fyrst og fremst að tala gegn. Ég vil standa vörð um öflugt krókaaflamarkskerfi en menn þurfi þá líka að fara eftir þeim reglum sem gera að verkum að haft er um það sérstakt kerfi.

Ég tel að hægt sé bæta mjög úr allri vinnuaðstöðu, aðbúnaði og öryggismálum þó að menn fari ekki upp í 30 brúttótonn enda hafa komið kvartanir frá þeim aðilum sem hafa verið á sjó á bátum sem hafa verið stækkaðir að menn hafi því miður, þegar upp var staðið, ekki endilega verið að hugsa um aðbúnað sjómanna heldur að koma sem mestum afla fyrir um borð og ýmislegt hefði gleymst sem hefði mátt vera til að bæta betur aðstöðu sjómanna.

Ég vil vísa málinu til nefndar aftur og hyggst leggja fram breytingartillögu við 3. umr.