142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

stjórn fiskveiða o.fl.

4. mál
[14:54]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningar hans. Fyrst um Byggðastofnun og byggðakvóta. Ég tel að Byggðastofnun hefði mátt miklu fyrr vinna að því að fyrirbyggja erfiðleika. Í frumvarpinu er talað um að Byggðastofnun komi að málum áður en vandræðin verða meiri og erfiðari og það tel ég vera mjög af hinu góða. Til þess er Byggðastofnun hugsuð, að hún komi líka með fyrirbyggjandi aðgerðir. Með þessum byggðakvóta er farið í þau sjávarbyggðarlög og fyrirtæki sem eru illa stödd, farið í fjárhagslega endurskipulagningu og veittur stuðningur, jafnvel til þriggja ára, meðan fyrirtækin eru að reisa sig á fætur, því að það getur verið mjög dýrt fyrir samfélagið ef fyrirtækin rúlla yfir.

Til Byggðastofnunar er kosið af Alþingi og ég vona að hv. þingmaður, ef áhugi er fyrir hendi hjá honum, geti komist þar að í stjórn. Ég sat þar í stjórn á árum áður.

Við þekkjum það í strandveiðunum að ákveðið magn er lagt til í þeirra sem deilist út á fjóra mánuði. Í því frumvarpi sem var lagt upp með af fyrri meiri hluta atvinnuveganefndar og fyrrverandi hæstv. atvinnuvegaráðherra var gert ráð fyrir að styrkja strandveiðarnar með að setja þær í hlutdeild.

Strandveiðar hafa sannað sig. Strandveiðimenn vita að þeir geta ekki róið í hvaða veðrum sem er, en við settum inn í það frumvarp þann öryggisventil að menn hefðu í fyrstu tveimur mánuðum tímabilsins fasta daga sem þeir gætu valið sér þegar veður væru vályndari, eins og í maí og júní, til að stefna mönnum ekki í einhverja keppni.