142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

breyting á stjórnarskrá og þjóðaratkvæðagreiðslur.

[11:03]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar hefði nú getað sleppt því að eyða fyrri spurningu sinni í leikrit til þess að undirbúa þá spurningu sem væntanlega kemur í kjölfarið. Ég gæti svarað báðum spurningum strax ef hv. þingmaður vill að ég spari tíma.

Afstaða mín til þjóðaratkvæðagreiðslu og beins lýðræðis liggur fyrir eins og hv. þingmaður nefndi reyndar sjálfur, ég hef alloft tjáð mig um það. Ég hef meðal annars tjáð mig um þessi 10% mörk eða viðmið og talið þau heldur lág og fleiri hafa bent á það. Margir þeirra sérfræðinga sem hafa metið þau frumvörp sem hafa verið til umræðu, og tillögur, hafa bent á að 10% viðmiðið geti reynst heldur lágt og jafnframt ítrekað mikilvægi þess að menn búi þannig um hnútana að þjóðaratkvæðagreiðslufyrirkomulagið verði ekki nýtt til þess að minni hluti í samfélaginu verði á einhvern hátt kúgaður, verði fyrir barðinu á þessu fyrirkomulagi, eins og bent hefur verið á að stundum vilji brenna við þegar menn fara ekki varlega í reglusetningu hvað þetta varðar. Menn þekkja dæmi frá Sviss þar sem er mikil og löng hefð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum. Það hefur þó gerst þar að minnihlutahópar í samfélaginu hafa orðið fyrir barðinu á því hvernig þjóðaratkvæðagreiðslur hafa verið notaðar. Menn þekkja líka dæmi um slíkt frá Kaliforníu.

Það er því að ýmsu að hyggja eins og við höfum rætt, ég og hv. þingmaður, hér um nokkurra ára skeið í tengslum við þessa umræðu en afstaðan um mikilvægi þess að auka beint lýðræði er óbreytt.