142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

friðlýsing Þjórsárvera.

[11:10]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Afstaða mín í þessu máli er sú sama og í svo mörgum öðrum, að það sé ákaflega mikilvægt að vinna hlutina faglega og huga að samráði við hina ýmsu aðila sem málum tengjast.

Af því að sérstaklega er spurt um fyrirhugaða friðlýsingu Þjórsárvera þá ætti hv. þingmanni að vera það ljóst að ástæðan fyrir því að þessari friðlýsingu var frestað var sú að erindi bárust frá sveitarfélögum og frá Landsvirkjun þar sem bent var á að töluvert hefði vantað upp á að fylgt hefði verið eftir áformum um samráð við þessa ákvarðanatöku. Í ljósi þess að Umhverfisstofnun hefur fram að þessu lagt ríka áherslu á vandaðan undirbúning við friðlýsingar og gott samráð við hagsmunaaðila töldu menn einfaldlega eðlilegt að bregðast við því og gefa fólki tækifæri til að koma ábendingum sínum á framfæri.

Það er reyndar fjallað um þetta í náttúruverndarlögum, þ.e. undirbúning og framkvæmd friðlýsingar. Þar kemur fram að við skoðun ráðuneytis sé mikilvægt að taka tillit til athugasemda og sé uppi verulegur vafi á því hvort málsmeðferðarreglum þeirra laga hafi verið fylgt með fullnægjandi hætti við undirbúning friðlýsingar sé full ástæða til að staldra við og skoða málin nánar. Hér eru menn í rauninni bara að vinna í samræmi við lögin og í samræmi við það markmið að vinna með fólki að því að gera skynsamlegar breytingar sem verða vonandi samfélaginu öllu til hagsbóta.