142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar.

[11:27]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. „Bjútíið“ við fjárfestingaráætlun …

(Forseti (EKG): Ég vil biðja hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að láta af þessum kenjum sínum.)

Allt í lagi. Ég aðhyllist reyndar frjálslynda nálgun á málverndarstefnu og tel að það sé allt í lagi að grípa til nýyrða og jafnvel búa þau til í ræðustól Alþingis.

Hið fagra við fjárfestingarstefnu fyrri ríkisstjórnar, sem Björt framtíð átti aðkomu að á síðasta kjörtímabili, var einmitt fjármögnunin. Hún var í raun og veru óháð stöðu ríkissjóðs vegna þess að hún byggði á því að nýta arðinn af eigum ríkisins í fjármálafyrirtækjum sem eru allverulegar því að ríkið á yfir 40% af fyrirtækjum á fjármálamarkaði á Íslandi og hins vegar að nýta veiðigjöld sem er nýr tekjustofn til að fara í fjárfestingar til þess að efla fjölbreytni (Forseti hringir.) í atvinnulífi. Þannig að (Forseti hringir.) fjármögnunin var tryggð og hún var í samræmi við (Forseti hringir.) áætlun í ríkisfjármálum.

Stendur ekki til að viðhalda þessari hugmyndafræði?