142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar.

[11:28]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Því miður eru áform fyrrverandi ríkisstjórnar um sölu á fjármálafyrirtækjum, einkavæðingu bankanna, varla raunhæf við núverandi aðstæður og voru það ekki heldur þegar slík áform voru fyrst sett inn í áætlanir ríkisstjórnarinnar um hvernig aflað yrði tekna, ekki aðeins vegna þeirrar fjárfestingaráætlunar sem hv. þingmaður spyr um heldur vegna rekstrar ríkisins almennt.

Tekjur af sölu ríkiseigna voru settar í fjárlög langt umfram það sem eðlilegt gat talist, eins og síðar kom í ljós, svoleiðis að þessi sérstaka fjárfestingaráætlun fyrrverandi ríkisstjórnar er ekki fjármögnuð að öllu leyti og jafnvel þótt svo væri þá er ekki hægt annað en að setja hana í samhengi við önnur útgjöld. Það mun þurfa að fara almennt í gegnum útgjöld ríkisins með hliðsjón af stöðu ríkisfjármála sem er, eins og ég nefndi áðan, mun lakari en gefið var í skyn í áætlanagerð fyrrverandi ríkisstjórnar.