142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[11:55]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. formanni nefndarinnar fyrir greinargerðina og nefndinni fyrir góða vinnu. Við höfum lýst því yfir að við munum leitast við að greiða hér leið þeim þingmálum sem lúta að skuldum heimilanna og afkomu heimilanna enda brýnt að þau fáist afgreidd á sumarþingi og mættu raunar koma fleiri fram og hraðar en orðið er.

Ég vil nota tækifærið í þessu andsvari, vegna þess að ég var ekki við umfjöllun um málið í nefnd, til að spyrja hv. þingmann hvers vegna ekki er farin sú leið sem lögð var til í frumvarpi hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar á síðasta kjörtímabili og Sjálfstæðisflokkurinn lagði mikla áherslu á á því kjörtímabili. Hvað kemur í veg fyrir að þau atriði sem lögð var áhersla á að væru lögfest þá séu lögfest nú?