142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[11:56]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru liðin nokkur ár frá því að það frumvarp var lagt fram og talsverður fjöldi mála hefur farið í gegnum dómskerfið nú þegar en auðvitað eru mörg mál eftir. Eins og kemur fram í nefndaráliti okkar og í greinargerð með þessu frumvarpi er ekki talin þörf á því að þessi mál skuli lúta þeim reglum sem kveðið er á um í XIX. kafla einkamálalaganna, þar sem gert er ráð fyrir því að dómari gefi út stefnu og allir frestir séu eins knappir og hægt er, vegna þess einfaldlega að þau mál sem eru í kerfinu og við teljum að eigi eftir að koma eru það flókin. Það hefur sýnt sig í reynd á þeim málum sem hafa þegar komið til dómstóla að þau þurfa sum hver tíma til þess að málsaðilar geti reifað sitt mál, safnað gögnum o.s.frv.

Við teljum rétt á þessum tímapunkti að fara þá leið sem frumvarpið gerir ráð fyrir en eins og ég sagði áðan munum við taka málið aftur inn í nefnd á milli umræðna og þá er sjálfsagt að velta þessum atriðum enn frekar fyrir okkur.