142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[11:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að staðfesta það að ágallar voru á þeim tillöguflutningi sem uppi var á síðasta kjörtímabili í þessu efni, sem voru efnislegir og ég held að hafi valdið því að það mál náði ekki fram að ganga. Ég held að þetta sé út af fyrir sig jákvætt skref og jafnvel þó að það liðsinnti ekki nema einum manni í einu máli væri það betur samþykkt en ósamþykkt.

Ég vil hins vegar spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki afstaða ríkisstjórnarinnar að allir þeir dómar í gengislánamálum sem ganga þurfa séu gengnir, hvort ríkisstjórnin sé ekki sammála umboðsmanni skuldara um að það sé ekkert að vanbúnaði, ekki síst fyrir Landsbanka Íslands í meirihlutaeigu ríkisins, að hefja þegar endurútreikning allra lána því að það sé komin niðurstaða í þau álitaefni sem uppi voru, síðast með þeim dómum sem féllu í Hæstarétti nú fyrr í þessum mánuði. Eða telur hv. þingmaður að það sé eftir einhverju að bíða að ráðast í endurútreikning hjá þeim tveimur fyrirtækjum sem eiga það enn eftir, Landsbankanum og Lýsingu?