142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[12:18]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir ræðu hans um þetta mál. Eins og fram kemur í nefndaráliti og þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar fjallar þetta að sjálfsögðu um flýtimeðferð tiltekinna mála fyrir dómstólum, en það kemur líka fram í nefndaráliti að almennt sé álitið að frumvarpið hafi í sjálfu sér ekki mikil áhrif á stöðu mála sem eru í dómskerfinu nú þegar, jafnframt að dómstólar hafi eftir bestu getu reynt að flýta málum af þessum toga. Hér er einnig lögð áhersla á að flýtimeðferðin komi ekki niður á málsmeðferðinni því að það hlýtur líka að vera mikilvægt að málsmeðferðin sé vönduð og dómarnir séu þá vel grundaðir.

Ég vil inna hv. þingmann eftir því hvort það hafi komið til umræðu í nefndinni, það er aðeins vikið að því efst í nefndaráliti á bls. 2 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Nefndin bendir á að nauðsynlegt sé að fylgjast með því hvaða áhrif þessi breyting hefur á starfsemi dómstólanna.“

Ég vil inna hv. þingmann eftir því hvort í tengslum við þetta mál hafi komið upp umræða í nefndinni um nýtt dómstig, millidómstig. Það er málefni sem hefur oftlega komið til umfjöllunar bæði í þinginu og úti í samfélaginu, ekki síst á meðal þeirra sem starfa við dómstóla og lögmennsku. Ég vil inna hv. þingmann eftir því hvort þau mál hafi komið til umfjöllunar í nefndinni í tengslum við þetta því að það er auðvitað hugsunin að létta álagið á dómstólunum og/eða dreifa því kannski með öðrum hætti. Það væri fróðlegt að vita hvort það hefði komið til tals og hvort hv. þingmaður hafi ákveðna skoðun á því.