142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[12:26]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum sem varða flýtimeðferð. Í raun er hér um að ræða frumvarp sem er hluti af þingsályktunartillögu forsætisráðherra um viðbrögð við skuldavanda heimilanna. Hér er um að ræða eitt fullbúið mál á þeim lista og því ber í sjálfu sér að fagna að allsherjar- og menntamálanefnd hefur fengið það mál til ítarlegrar og efnislegrar meðferðar og umfjöllunar. Í meginatriðum er niðurstaðan sú að nefndin styður fram komið frumvarp.

Það er ljóst að íslenska efnahagshrunið var gríðarlegt högg, ekki bara fyrir fjölskyldur og heimili, eins og oft hefur verið rætt, heldur einnig og ekki síður fyrir samfélagið sjálft, innviði þess og stofnanir sem voru að sumu leyti ekki reiðubúnar fyrir slíkt áfall, enda höfum við, bæði löggjafinn og framkvæmdarvaldið og dómstólarnir verið að mörgu kafin við að leysa úr þeim gríðarlega vanda sem af hruninu hlaust og eitt þeirra viðfangsefna er til umfjöllunar í þessu frumvarpi.

Hér er verið að freista þess að bregðast við tilteknum vanda, þ.e. að þegar upp kemur ágreiningur í dómsmáli sem lýtur að lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlends gjaldmiðils eða vísitölu þurfi að tryggja að slíku máli sé hraðað.

Ég styð málið í sjálfu sér en hef um það miklar efasemdir. Þær lúta fyrst og fremst að því að þrátt fyrir yfirlýst markmið frumvarpsins, sem er í sjálfu sér góðra gjalda vert, um að greiða fyrir afgreiðslu dómsmála af þessu tagi, sem er auðvitað mikilvægt að sé flýtt eins og kostur er, þá hafa dómstólar þegar sett þessi tilteknu mál í forgang. Það er afstaða mín að ekki verði séð að þetta frumvarp breyti í raun og veru neinu um núverandi stöðu, hvorki fyrir málsaðila né fyrir dómstóla sjálfa. Þá má auðvitað velta fyrir sér hver tilgangurinn er með framlagningu málsins ef slíkt er ekki tryggt, þ.e. að um raunverulega breytingu sé að ræða.

Í nefndaráliti með frumvarpinu sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, mælti fyrir hér áðan kemur fram umræða sem var töluvert uppi í nefndinni um málsforræðisreglu einkamála réttarfarsins þar sem það á að vera tryggt að aðilum einkamáls sé frjálst að ráðstafa sakarefni máls með athöfnum sínum eða athafnaleysi. Nefndin áréttar að það sé skilningur nefndarinnar að málsforræðisreglunni sé ekki með nokkru móti vikið til hliðar. Hins vegar má staldra við það og hafa af því áhyggjur vegna þess að það kemur líka fram í umsögnum með frumvarpinu að frumvarpið kunni að vera of almennt orðað. Hér gæti verið um að ræða rétt eða löggjöf sem sé of almenns eðlis miðað við meginreglur einkamála réttarfarsins og miðað við það hversu skýr sá lagagrunnur er að jafnaði og þarf að vera í ljósi réttaröryggis, að orðalagið sem er í frumvarpinu, eins og að flýta málum, að niðurstaða fáist í mál hið fyrsta og svo framvegis, í umræðunni um að hraða meðferð mála, sé að sumu leyti of almennt þegar um er að ræða svo ríka hagsmuni sem hér eru undir.

Í umsögn Lögmannafélags Íslands er talað um að að mati laganefndar félagsins sé regla frumvarpsins of almenns eðlis miðað við þau markmið sem ráða megi af greinargerð frumvarpsins. Lögmannafélagið leggur raunar til að gengið sé svo langt að vísa um meðferð til XIX. kafla einkamálalaganna um flýtimeðferð. Ég er ekki sammála Lögmannafélaginu um þá ábendingu en Lögmannafélagið telur að sé það raunverulegur vilji löggjafans að tryggja flýtimeðferð í málum væri eðlilegast að fella þessa flýtimeðferð undir þann kafla, þ.e. heimildina til flýtimeðferðar við mál sem hafa almennt fordæmisgildi.

Laganefndin vekur líka athygli á því að flýtimeðferð dómstóla ein og sér tryggi í sjálfu sér ekki úrlausn allra tilvika. Má það til sanns vegar færa og er auðvitað það sem við hefur blasað í þeim gríðarlega fjölda mála sem verið hefur til umfjöllunar eftir efnahagshrunið að hindranirnar geta verið allt aðrar; þær geta verið í aðdraganda aðalmeðferðar og þær geta verið í úrvinnslu máls og endurútreikningum lána. Þannig að ef einungis er tekið á þessum punkti einum og sér eru áhöld um að markmiðin, sem eru góðra gjalda verð, náist. Ég tel að það sé afar mikilvægt að halda því til haga að það er auðvitað meginregla einkamálalaga að hraða málum eftir föngum. Sú meginregla á að tryggja að mál dragist alla jafna ekki á langinn og samkvæmt því sem fram hefur komið hjá dómstólum hefur sá háttur verið hafður á varðandi mál af þessu tagi.

Enn og aftur má því velta fyrir sér hverju lagaákvæðið breytir í raun og veru. Er hægt að byggja einhvern áþreifanlegan og raunverulegan rétt á þessu ákvæði? Laganefnd Lögmannafélagsins reifar þær vangaveltur, og er það nokkuð í takt við þær efasemdir sem ég hef haft í umræðunni um málið, og bendir á að texti frumvarpsins sé of almenns eðlis. Það sé óheppilegt með hliðsjón af því að einkamálalög feli í sér ákveðnar reglur um málsmeðferð og afar mikilvægt fyrir réttaröryggið í samfélaginu að málsmeðferðar reglur séu skýrar, að lögbundnir frestir séu skýrir og að fyrirtökur fari fram eins og lögin mæla fyrir um.

Almennt orðalag um að hraða meðferð er að líkindum ekki til þess fallið að breyta neinu um þetta atriði og er kannski til þess fallið að árétta þann praxís, ef svo má að orði komast, sem þegar er viðhafður í slíkum málum. Það á auðvitað að vera viðfangsefni okkar hér á Alþingi, á löggjafarsamkomunni, að tryggja það að löggjöf sé sem skýrust og gagnsæjust og sé raunverulegt verkfæri fyrir þá sem eftir henni eiga að fara hverju sinni. Því er það verulega mikið umhugsunarefni að þessi leið sé farin í ljósi þessara athugasemda.

Það er rétt sem hefur komið fram í umræðunni og í framsögu hv. formanns nefndarinnar að flestir þeim sem tjáðu sig um innihald málsins töldu það vera til bóta eða að það væri að minnsta kosti ekki til hins verra. Af þeim ástæðum kýs ég að styðja málið þrátt fyrir efasemdir þær sem ég hef reifað hér þar sem málið er í sjálfu sér ekki til annars en góðs. Hins vegar árétta ég þann skilning minn að hér sé í besta falli um að ræða viljayfirlýsingu eða fært í orð það sem almennt hefur verið tíðkað og ég er ekki viss um að það sé endilega góð löggjöf sem er svo almenns eðlis.

Þá má velta fyrir sér út frá pólitískum hliðum málsins, af því að það er auðvitað mikilvægt fyrir nýja ríkisstjórn að sýna fljótt á spilin, að hún leggi fram mál sem séu í raun til hagsbóta fyrir heimilin í landinu og að kosningaloforðin og væntingarnar séu í þeim farvegi að þau sé verið að uppfylla. Þess vegna er það nokkurt umhugsunarefni að nákvæmlega þetta mál, sem er það fyrsta af þessum málum sem kemst til 2. umr., skuli ekki vera meira afgerandi en svo að segja megi að hér sé um tiltölulega almennt orðalag að ræða, eins og bent hefur verið á og eins og ég hef sjálf bent á og Lögmannafélagið líka í umsögn sinni.

Hér hefur áður verið nefnt í umræðunni það sem fram kemur í umsögn dómstólaráðs þar sem dómstólaráð vekur athygli á því að ef þau mál sem hér er markmiðið að flýta eru í forgangi, ef dómstólar telja þetta vera nægilega lagastoð til þess að þau séu í lögbundnum forgangi, þá mun málsmeðferð þeirra mála sem fara aftar í röðina dragast að óbreyttum mannafla. Það er gríðarlega mikilvægt mál. Við skulum þá leiða hugann að því hvaða mál það eru sem þola bið. Hvaða mál þola bið? Hvers konar mál eru það sem eru komin það langt í meðferð dómskerfisins að þau bíða aðalmeðferðar og mega bíða vegna þess að önnur mál eru tekin fram yfir?

Það er mjög mikilvægt, ekki síst í ljósi þess að við framsögu málsins staðhæfði hæstv. innanríkisráðherra að slíkar áhyggjur væru óþarfar, að ekki yrði um að ræða mál sem þyrftu að líða fyrir þessa lagabreytingu. En dómstólaráð, sem er jú sennilega best til þess bært, hefur af því áhyggjur og segir að ef sá máti verði hafður á þá þurfi að auka í mannafla dómstólanna. Það hlýtur því að vera viðfangsefni sem horft verður til við gerð fjárlaga síðar á þessu ári að að því verði gætt hvort í fjárlagafrumvarpinu fylgi það nauðsynlega fjármagn sem þarf til þess að tryggja þennan mannafla. Það er jú algjör forsenda fyrir því að raunverulegt hald sé í málinu, sem ég hef, eins og fram hefur komið, þó þessar efasemdir um.

Við Héraðsdóm Reykjavíkur eru nú til meðferðar 60 mál af þeim toga sem hér hafa verið nefnd og auðvitað hafa dómstólar um nokkra hríð fjallað um mikilvægi þess að gerðar séu nauðsynlegar ráðstafanir til þess að leysa úr málum að því er varðar mannafla og aðrar forsendur til þess að hægt sé að vinna á þeim umfangsmikla stabba sem dómstólarnir hafa með höndum og þurfa að minnka og að þeir þurfi á tímabundinni fjölgun dómara að halda. Dómstólaráð áréttar þann skilning sinn í umsögn sinni og ég held að það sé afar mikilvægt að við höldum þeim þætti vel til haga.

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið í máli mínu tel ég að málið sé í meginatriðum framfaraskref en það sé kannski of óskýrt, ef ég má orða það þannig. Framfaraskrefið lýsir ákveðnum vilja en það má halda þeim vangaveltum til haga hvort um sé að ræða fyrirmyndarlöggjöf þar sem orðalagið er almennt og óljóst og hvort frumvarpið sé þess eðlis að það sé í raun hægt að byggja á því rétt og hvort tryggt sé að málsaðilar fái allt það svigrúm sem þeir þurfa til þess að útbúa mál sín fyrir dómstólunum og geti nýtt allan þann tíma sem þarf til þess eða, ef maður veltir þessu upp í pólitísku samhengi eins og ég gerði áðan, í ljósi þess að nú er réttarhlé og dómstólar eru ekki að störfum og þá bætist sú röksemd inn í vangavelturnar um það hvort þessi breyting á lögunum sé í raun breyting eða hvort þetta sé fyrst og fremst pólitísk yfirlýsing. Þetta sé fyrst og fremst yfirlýsing um að okkur finnist að dómstólar hafi reynt að tryggja að þessi mál séu í ákveðnum forgangi. Dómstólarnir hafa nýtt það svigrúm sem þeir hafa samkvæmt meginreglum einkamála réttarfars til þess að skoða hvert mál fyrir sig og tryggja að þau séu í forgangi á grundvelli efnis hvers um sig.

Þá veltir maður fyrir sér: Til hvers er farið? Er fyrst og fremst um að ræða almenna viljayfirlýsingu eða löggjöf sem breytir í raun einhverju fyrir skuldug heimili, fyrir málsaðila og fyrir dómstólana?

Það sem vekur mestar áhyggjur af þessu máli er í fyrsta lagi það sem ég hef nefnt hér varðandi mannafla fyrir dómstóla og hins vegar að að öðrum kosti bitni þetta á öðrum málum sem hafa þó ekki verið skilgreind.

Ég vil í lok máls míns árétta að ég styð málið, svo því sé til haga haldið, þó að ég hafi haft tölu mína fyrst og fremst um efasemdir mínar. Fyrirvari minn lýtur að því að þrátt fyrir þau jákvæðu markmið frumvarpsins að greiða fyrir afgreiðslu umræddra mála í dómstólum, að þeim sé flýtt eins og kostur er, þá verði í sjálfu sér ekki séð að þetta frumvarp breyti miklu um núverandi stöðu, hvorki fyrir málsaðila né fyrir dómstólana sjálfa.