142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[12:46]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kemur þarna inn á mjög mikilvægan punkt sem er í raun og veru það að flýtimeðferð má ekki vera á kostnað þess að málin fái skýra umfjöllun. Í ljósi þess hversu flókin ágreiningsmálin eru þurfa lántakar allan þann tíma sem nauðsynlegur er til þess að öll gögn málsins liggi fyrir. Svo er það annað umræðuefni sem væri verðugt að taka hér upp, þ.e. sú staða að fjármálafyrirtækin hafa auðvitað gríðarlegan aðgang að mjög harðsnúnu liði lögmanna og er erfitt fyrir óbreyttan almenning og venjulegan lántaka að standa einfaldlega straum af þeim kostnaði sem þarf að leggja til til þess að búa sín mál fyrir dóm.

Það eru því gríðarlega miklir hagsmunir þarna undir líka sem verður að horfa til þegar verið er að fjalla um þetta. Við verðum að gæta að því að líta ekki svo á að flýtirinn einn og sér sé eftirsóknarverður vegna þess að flýtirinn getur verið þess eðlis að hann gangi á rétt aðila til að öll gögn liggi fyrir og öll kurl séu komin til grafar í raun áður en til aðalmeðferðar kemur eða áður en allar forsendur fyrir dómi liggja fyrir. Sú ábending sem kemur frá umboðsmanni skuldara er í raun og veru algjörlega í takti við þessar áhyggjur. Tíminn er mjög dýrmætur í þessum efnum og frumvarpið eða lagabreytingin má alls ekki verða til þess að á þann rétt sé gengið og þá hef ég fyrst og fremst áhyggjur af rétti lántaka.