142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[14:25]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og vil nú fá að vera hér með andsvar við ræðu hans vegna þess að ég veit að hann þekkir býsna vel til mála enda löglærður maður og nýlega kominn af mörkinni hingað í þingsalina með ferska reynslu af vettvangi. Ég vil spyrja þingmanninn hvort það sé rétt skilið hjá mér að sú flýtimeðferð sem lögð var til í frumvarpi einu sinni eða tvisvar á síðasta kjörtímabili af hv. þáverandi þingmanni, Sigurði Kára Kristjánssyni, hefði ekki hentað til úrlausnar þessara mála. Er það sjónarmið þingmannsins? Sömuleiðis hvort hann sjái tilefni til þess að gera einhverjar breytingar aðrar en þær sem nefndin leggur til á málinu eins og það liggur nú fyrir, til að mynda varðandi þá áfrýjunarfresti sem hann nefnir að árangursríkara væri að stytta eða hvers vegna erfitt sé að gera það að lögum. Er það ákveðið í reglugerð eða því skipað með öðrum hætti?

Síðan vildi ég spyrja hv. þingmann hvort hann teldi að dómsniðurstaða væri komin í öllum öðrum prófmálum en prófmáli Lýsingar, sem var eitt af þessum 11 eða 14 málum sem voru ákvörðuð prófmál í samráði fjármálafyrirtækja og umboðsmanns skuldara. Mál Lýsingar er í flýtimeðferð í héraði og verður komið til Hæstaréttar í haust, en er ekki komin niðurstaða í öllum öðrum prófmálum? Er það mál ekki í flýtimeðferð? Mun þessi löggjöf út af fyrir sig breyta miklu? Og þótt hún breytti litlu en væri jákvæð væri samt vert að samþykkja hana því að ég hef sagt að þótt hún þjóni ekki nema einum manni í einu máli sé það skárra en ekkert.