142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[14:27]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi frumvarp Sigurðar Kára Kristjánssonar á síðasta þingi þá er mín skoðun sú að eins og flest þessara mála voru á sínum tíma hefði flýtimeðferðarkaflinn í lögunum ekki hentað fyrir þau. Ég tel að það hefði verið of langt gengið að fara þá leið.

Varðandi áfrýjunarfrestinn er mjög auðvelt að breyta honum í lögum, sem gæti verið tilefni til, þ.e. að stytta hann. En um málsmeðferðarreglur og fresti í meðferð máls fyrir héraði er hins vegar flóknara að setja reglur. Mál eru auðvitað svo mismunandi og gagnaöflun mismunandi að það er mjög flókið. Dómarinn hefur auðvitað ákveðið svigrúm en við verðum treysta á að frestir fari ekki úr hófi og menn rökstyðji af hverju þurfi lengri fresti en alla jafna. Það er því ákveðið praktískt vandamál.

Af því ég var spurður út í prófmál Lýsingar er ég ekki tilbúinn að ræða einstök prófmál í þingsal, allra síst mál sem eru rekin á stofu sem ég tengist. Ég ætla ekki að taka nokkra afstöðu til þess hvort niðurstaða í þessu máli gildi fyrir önnur mál sem eru af svipuðum toga.