142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[14:32]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir ræðuna og hvernig hann brást við álitaefnum sem ég velti upp í ræðu minni. Ég skil hann þannig að hann sé í raun og veru sammála því viðhorfi sem er meðal annars lýst í fyrirvara í nefndaráliti, að þrátt fyrir að mikilvægt sé að hraða meðferð mála af þessum toga þá breyti það kannski ekki mjög miklu í raun þegar á hólminn er komið.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann sérstaklega út í það sem segir í frumvarpinu að ef ágreiningur í dómsmáli lýtur „að lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu eða uppgjöri slíkra skuldbindinga og skal þá hraða meðferð slíks máls“. Hvert er svigrúm dómara þegar lagatextinn er orðaður með þessum hætti? Getur hann á grundvelli þessa ákvæðis ákveðið að stytta alla fresti, þar með talda áfrýjunarfresti, eða þarf að vera eitthvert pósitíft ákvæði eða hugsanleg bein vísun í XIX. kafla laganna um meðferð einkamála til að það sé hægt?

Einnig er í umsögn laganefndar Lögmannafélagsins gerð tillaga um annað orðalag, með leyfi forseta:

„Í stað orðanna „og skal þá hraða meðferð slíks máls“ komi „og skal þá stefnanda heimilt að óska þess að mál sæti málsmeðferð eftir reglum XIX. kafla laganna, enda geti úrlausn þess haft almenna þýðingu“.“

Mig langar að heyra viðhorf þingmannsins til þess hvaða þýðingu orðalagið sem Lögmannafélagið leggur til mundi hafa. Mundi það vera skýrara? Mundi það skýra heimildir dómaranna betur? Hvaða heimild hefur dómari eða svigrúm á grundvelli orðalagsins eins og það er í 1. gr. frumvarpsins núna?