142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[14:57]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér skilst að ég sé í Reykjavíkurkjördæmi norður.

(Forseti (SJS): Norður er það, forseti biðst forláts.)

Ég sagði áðan að ég væri ekki viss um að frumvarpið mundi breyta miklu í raun um málshraðann í héraði. Ég veit að menn hafa reynt að flýta þessum málum, hafa frestina eins stutta og mögulegt er, sem er gert í mörgum öðrum málum þar sem brýnt er að fá niðurstöðu sem allra fyrst. Það er mjög eðlilegt. Dómarar eru auðvitað alltaf að reyna að hraða málsmeðferð almennt eins og hægt er, hafa fresti stutta, vilja klára þetta og koma því í aðalmeðferð sem allra fyrst. Þannig hefur þetta verið gert í þessum málum. Auðvitað er dómari kannski ekki mikið að ströggla við lögmennina ef þeir telja sig þurfa gögn þaðan og þaðan og þau ekki komin, þá lengir hann frestina. Þetta er allt saman reynt.

Ástæðan fyrir þessu frumvarpi að mér skilst er sú að treysta þann lagagrunn þannig að dómarar geti haft betri lagagrunn til að ýta þessum málum hratt áfram auk þess sem málsaðilar líta kannski svo á að þeim beri að haska sér eins og mögulegt er.